1. grein.

Björgunarsveitin heitir Björgunarsveit Hafnarfjarðar og hefur aðsetur í Hafnarfirði. Sveitin er aðili að Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Kjörorð sveitarinnar er: Ávallt viðbúin.

2. grein.

Tilgangur sveitarinnar er að vinna að hverskonar björgunar- og leitarstörfum auk gæslu, á landi sem og á sjó. Að þjálfa félaga sveitarinnar sem best til björgunarstarfa og koma upp nauðsynlegum búnaði.

3. grein.

Sveitin starfar í tengslum við Skátafélagið Hraunbúa, slysavarnadeildina Hraunprýði, ásamt klúbbum eldri félaga Hjálparsveitar skáta Hafnarfirði og Björgunarsveitar Fiskakletts. Sveitin gerir það sem í hennar valdi stendur til þess að hlúa að og styrkja starf þessara deilda.

4. grein.

Félagar geta einir orðið, sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:

a. vera orðin 18 ára

b. hafa starfað í minnst 12 mánuði með sveitinni

c. stenst þær kröfur sem nýliðareglugerð segir til um

d. hafa undirritað eiðstaf sveitarinnar

e. hafi veitt skriflegt leyfi fyrir öflun upplýsingar úr sakaskrá.

5. grein.

Félagi getur sætt brottrekstri úr sveitinni fyrir einhverja af þessum sökum:

a. ef viðkomandi verður uppvís að því að spilla áliti eða hagsmunum sveitarinnar innan hennar eða utan

b. ef viðkomandi verður ítrekað uppvís að brotum á reglum sveitarinnar

c. ef viðkomandi verður ítrekað uppvís að óviðunandi umgengni um eignir og tæki sveitarinnar

d. ef viðkomandi rýfur eiðstaf sveitarinnar.

Gerist félagi brotlegur getur stjórn veitt honum formlega áminningu eða ákveðið að reka hann úr sveitinni. Stjórn skal tilkynna viðkomandi ákvörðun sína skriflega og færa til bókar í fundargerð.

Gerist félagi brotlegur eftir að hafa verið áminntur með formlegum hætti skal horft til þess við ákvörðun stjórnar um frekari áminningu eða brottrekstur. 

Sætti hlutaðeigandi sig ekki við úrskurð stjórnarinnar getur hann skotið máli sínu til næsta sveitarfundar.

6. grein.

Stjórnun sveitarinnar er í höndum stjórnar. Stjórn sveitarinnar er skipuð sjö mönnum, formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara, aðstoðar gjaldkera og tveim meðstjórnendum. Stjórn skal nánar skipta með sér verkum að loknum aðalfundi. Formaður og gjaldkeri eru kosnir til tveggja ára í senn, þannig að formaður er kosinn á sléttu ári og gjaldkeri á oddatölu ári.Aðrir stjórnarmenn eru kosnir til eins árs í senn. Auk þess skulu kosnir fyrsti og annar varamaður sem kalla skal til starfa í stjórn ef stjórnarmaður forfallast.

7. grein.

Stjórn semur reglugerðir um einstaka þætti sveitarinnar. Reglugerðirnar þurfa samþykki sveitarfundar til að öðlast gildi. Kynna skal reglugerðina í boðun fundarins. Þá skulu allar gildandi reglugerðir vera félögum aðgengilegar.

8. grein.

Aðalfundur sveitarinnar skal haldinn í mars eða apríl ár hvert. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

2. Skýrsla stjórnar um starf sveitarinnar lesin upp. Skýrslan skal vera aðgengileg í formi ársrits ásamt skýrslu allra flokka og nefnda. Stjórn kallar eftir skýrslum flokka tveimur vikum fyrir aðalfund. Formenn flokka skulu skila skýrslum viku fyrir aðalfund.

3. Fjárhagsskýrsla gjaldkera.

4. Umfjöllun um ársreikninga og þeir bornir undir atkvæði.

5. Inntaka nýrra félaga.

6. Lagabreytingar, enda hafi þess verið getið í fundarboði að þær yrðu á dagskrá.

7. Kosning stjórnar, sbr. 6. gr. laga þessara. Formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og aðstoðar gjaldkeri skulu kosnir sérstaklega, en meðstjórnendur í einu lagi. Þá skulu varamenn kosnir sérstaklega.

8. Kosning laganefndar og uppstillingarnefndar. Skulu þær skipaðar þrem mönnum hvor auk varamanns.

9. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og tveggja til vara.

10. Kosning tveggja trúnaðarmanna.

11. Ákvörðun árgjalds.

12. Önnur mál.

Fundargerð aðalfundar skal lesin upp til samþykktar á næsta sveitarfundi eftir aðalfund. Þá skal hún varðveitt og vera félagsmönnum aðgengileg ásamt því að vera vistuð í fundarbók.

 9. grein.

Reikningsár sveitarinnar skal miðast við almanaksárið.

 10. grein.

Aðalfundur skal boðaður með minnst tveggja vikna fyrirvara af hálfu stjórnar sveitarinnar, með áberandi auglýsingu í húsakynnum sveitarinnar og ennfremur með opinberri auglýsingu eða bréfi til félagsmanna.

Aðalfundur telst lögmætur, sé löglega til hans boðað. Allar tillögur til lagabreytinga sem leggja á fram á fundinum skulu hafa borist til laganefndar fyrir 10. febrúar. Tillögur að uppstillingu og lagabreytingu(m) skulu auglýstar í húsakynnum sveitarinnar minnst viku fyrir aðalfund.

 11. grein.

Sveitarfundir skulu haldnir að lágmarki á þriggja mánaða fresti. Stjórn skal boða til þeirra með viku fyrirvara, skriflega eða með rafrænni auglýsingu og greina fundarefni. Rita skal fundargerð og hún skal vera varðveitt og aðgengileg öllum félögum sveitarinnar.

Rétt til setu á sveitarfundi hafa fullgildir félagar, félagar á gestaaðild og nýliðar.

Stjórn er skylt að boða sveitarfund ef 20 félagar óska eftir því skriflega og greina fundarefni. Þá hefur stjórn 14 daga til að halda fundinn en annars geta félagar boðað fundinn sjálfir.

12. grein.

Árgjald sveitarinnar skal ákveðið á aðalfundi. Fullgildir félagar sveitarinnar sem ekki hafa greitt árgjald hafa hvorki kjörgengi né atkvæðisrétt á aðalfundi og sveitarfundum.

13. grein.

Ef björgunarsveit Hafnarfjarðar hættir störfum skulu eignir hennar verða í vörslu Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Eigi er Slysavarnafélaginu Landsbjörg heimilt að ráðstafa þessum eignum nema til uppbyggingar björgunar og hjálparsveitar í Hafnarfirði.

14. grein.

Lög sveitarinnar skulu vera félögum aðgengileg.

15. grein.

Lög þessi öðlast þegar í stað gildi.

Samþykkt á aðalfundi Björgunarsveitar Hafnarfjarðar 31. maí 2021