Hér að neðan má finna þær reglur og reglugerðir sem eru í gildi hjá sveitinni.

Almennar reglur
  1. Stjórn sveitarinnar skal sjá til að útkalls- og búnaðarskrá sé tiltæk lands- og svæðisstjórn. Meðlimir Björgunarsveitar Hafnarfjarðar eru sjálfir ábyrgir fyrir því að allar persónulegar upplýsingar um þá svo sem símanúmer og heimilisföng séu rétt og ber að tilkynna breytingar þar um til stjórnar.
  2. Allir félagar á útkallsskrá Björgunarsveitar Hafnarfjarðar skulu sinna kvaðningu til leitar og björgunarstarfa tafarlaust, nema til komi eðlileg forföll, sem tekin eru gild. Koma skal forföllum til skila svo fljótt sem auðið er eftir að útkall berst.
  3. Björgunarmaður ber að hlýða boðum stjórnenda sinna og leggja sig fram um að rækja hlutverk sitt sem best.
  4. Björgunarsveitarmaður er ábyrgur fyrir eigin öryggi og má aldrei taka óarfa áhættu. Ávallt skal gæta fyllsta öryggis. Björgunarsveitarmanni ber aldrei skylda til að leggja sig í lífshættu.
  5. Félögum Björgunarsveitar Hafnarfjarðar er skylt að gæta þagmælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu fyrir sveitina og leynt skulu fara. Þetta á einnig við um birtingu mynda af slysavetvangi. Félögum Björgunarsveitar Hafnarfjarðar bera að hlýta siðareglum Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
  6. Stjórnendum sveitarinnar eða hópstjórum er heimilt að vísa björgunarsveitarfólki úr útkalli, leit eða aðstoð, séu þeir ekki útbúnir samkvæmt aðstæðum, ef um veikindi er að ræða, sé björgunarsveitarfólk undir áhrifum vímuefna eða að öðrum orsökum.
  7. Fjölmiðlum skal vísa til stjórnanda sveitarinnar í aðgerð.
  8. Þegar félagar eru í fatnaði merktum Björgunarsveit Hafnarfjarðar eða Slysavarnafélaginu Landsbjörg skal litið svo á að þeir séu í starfi fyrir sveitina.
  9. Félögum Björgunarsveitar Hafnarfjarðar er óheimilt að mæta í starf sveitarinnar undir áhrifum áfengis eða öðrum vímuefnum.
  10. Stjórn getur vísað mönnum úr starfi sveitarinnar tímabundið eða að fullu gerist þeir brotlegir við reglur sveitarinnar.
  11. Telji björgunarmaður að hann sé órétti beittur að hálfu stjórnar getur sá aðilli vísað máli sínu til frekari úrlausnar á sveitarfundi. Ber honum þá að hlíta niðurstöðu fundarins.
  12. Reglur þessar taka þegar gildi.

Hafnarfjörður, 26. maí 2008

Stjórn Björgunarsveitar Hafnarfjarðar

Reglur um gestaaðild
  1. Þeir sem mega sækja um gestaaðild verða að vera fullgildir félagara í annarri björgunarsveit og framvísa staðfestingu stjórnar sinnar sveitar, þess lútandi.
  2. Umsókn um gestaaðild skal vera skrifleg og beint til stjórnar björgunarsveitarinnar.
  3. Gestaðild er veitt í eitt ár í senn.
  4. Beiðni um gestaaðild skal beint til stjórnar björgunarsveitarinnar.
  5. Sá sem hefur gestaaðild, hefur rétt til að sækja almennt starf björgunarsveitarinnar og hefur áheyrnarrétt á fundum.
  6. Sá sem hefur gestaaðild, hefur ekki atkvæðisrétt á aðalfundi, í nefndum eða flokkum.
  7. Sá sem hefur gestaaðild, hefur ekki heimild til að vera í forsvari fyrir flokk eða hóp innan björgunarsveitarinnar.
  8. Sá sem hefur gestaaðild, hefur ekki heimild til að vera umsjónarmaður björgunartækis björgunarsveitarinnar.
  9. Sá sem hefur gestaaðild, skal sækja um námskeið til sinnar sveitar, vilji hann sækja námskeið með félögum Björgunarsveitar Hafnarfjarðar.
  10. Stjórn björgunarsveitarinnar er heimilt að gera undantekningar á reglum þessum, ásamt því að afturkalla gestaaðild án fyrirvara.
Siðareglur BSH
  1. Félagar í Bjsv. HF. Sýna góða hegðun í störfum og undir merkjum sveitarinnar og vanvirða á engan hátt félagið eða markmið þess.
  2. Björgunarsveitarmenn fari eins vel og kostur er með húsnæði, tæki og búnað sveitarinnar. Björgunarsveitarmaður skal gæta að þeim búnaði sem honum er falin umsjón með eða sem honum tilheyrir, að sá búnaður sé ávallt í fullkomnu lagi og til reiðu í björgunarstöð. Enginn getur tekið eða fengið lánaðan búnað sveitarinnar nema með leyfi stjórnar.
    Björgunarmaður skal ávallt vera vel búinn til björgunarstarfa.
  3. Tækjum sveitarinnar stjórna ekki aðrir en þeir sem hafa réttindi samkvæmt landslögum og eru samþykktir af formönnum flokka eða stjórn.
  4. Stjórnendum tækja sveitarinnar skulu sýna fyllstu aðgát og varkárni og gæta þess að valda ekki slysahættu eða skemmdum á verðmætum. Sérstaklega gæti þeir þess að valda ekki spjöllum á landi og gróðri eða eignum annarra.
  5. Ef slys verða á fólki eða tæki verða fyrir skemmdum í aðgerð eða í öðru starfi á vegum Bjsv. Hf. ber að tilkynna það tafarlaust til stjórnar sveitarinnar.
  6. Öll björgunarstörf, æfingar, námskeið og undirbúningur þeirra er ólaunaður.
  7. Enginn getur stofnað til skulda á hendur sveitinni nema með samþykki stjórnar.
  8. Félaga sem gerist brotlegur við siðareglur Bjsv. Hf. má stjórn vísa úr starfi á vegum sveitarinnar tímabundið eða að fullu ef sakir eru miklar eða ítrekaðar.
  9. Telji björgunarmaður að hann sé órétti beittur að hálfu stjórnar getur sá aðilli vísað máli sínu til frekari úrlausnar á sveitarfundi. Ber honum þá að hlíta niðurstöðu fundarins
Starfsrammi flokka og formanna
  1. Flokkar og hópar skulu kjósa sér formann í síðasta lagi 30 dögum eftir aðalfund. Einnig skal kjósa varaformann í stærri flokkum.
  2. Flokkar og hópar skulu í upphafi hvers starfsárs setja sér markmið og gera dagskrá flokksins/hópsins fyrir starfsárið. Dagskránni skal skila til stjórnar.
  3. Flokkar og hópar skulu fylgja dagskrá, mæta í fjáraflanir sveitarinnar og vera sveitinni til fyrirmyndar í öllu starfi.
  4. Flokkar og hópar skulu í upphafi starfsárs finna til þann búnað sem er í umsjón þeirra, fara yfir hann, trygga að hann sé hæfur til notkunar í útkalli, vel merktur og aðgengilegur. Einnig skulu þeir viðhalda búnaðarskrá yfir þann búnað sem tilheyrir flokknum/hópnum.
  5. Flokkar skulu setja sér reglur um inngöngu í flokkinn/hópinn og reglur um útkallslista.
  6. Ekki er æskilegt að stjórnarmaður sinni starfi formanns flokks eða hóps.
  7. Skyldur formanna flokka/hópa hafa umsjón með sínum flokk/hóp:
    1. Sjá til þess að flokkar/hópar sinni sínu starfi
    2. Skila ársskýrslu á fyrsta stjórnarfund í febrúar og flytja hana síðan á aðalfundi. Allar skýrslur miðast við starfsár sveitarinnar.
    3. Flokkurinn gerir fjárhagsáætlun sem formaður skal skila inn í síðasta lagi 30 dögum eftir aðalfund.
  8. Formaður skal útbúa þjálfunaráætlun fyrir hvert starfsár í samráði við flokkinn/hópinn og þjálfunarráð. Þjálfunaráætlun skal skila til stjórnar ekki síðar en 1. september ár hvert.
  9. Formaður flokks/hóps skal leysa ágreininga þá sem koma upp í starfi. Ef ekki tekst að leysa úr ágreiningi skal skjóta honum til stjórnar.
  10. Formaður flokks er ábyrgur fyrir félagatali flokksins og skal leggja fram tillögur um útkallslista flokksins tvisvar á ári fyrir stjórn, 1. mars og 1. september.

Uppfært 16. apríl 2014

Reglur um kaup á björgunarsveitafatnaði

Reglur um endurnýjun eða kaup á björgunarsveitargöllum eða peysum
Engum er heimilt að skrifa á sveitina úttektir hjá Landsbjörg án samþykktar stjórnar eða gjaldkera sveitarinnar.
Kaup á fatnaði:
Sækja um hjá stjórn um heimild til nýkaupa eða endurnýjar fatnaðar með tölvupósti: stjorn@spori.is
Að fengnu samþykki stjórnar
Fara í Skógarhlíð og kaupa samþykktan fatnað
Láta skrifa kaupin á sveitina ásamt skýringu: NAFN KAUPANDA/ÞITT
Leggja inn á reikning sveitarinnar þann hluta sem kaupanda ber, styrkur er veittur skv. almennum styrkreglum, og, senda kvittun til gjaldkera í tölvupósti: gjaldkeri@spori.is
Reikningsupplýsingar:
KT. 410200-3170 Rkn. 0544-26-2620
Merking á fatnaði:
Prentsýn að Rauðhellu 1, 221 Hafnarfirði merkir fyrir okkur fatnað.
Senda skal starfsmanni sveitarinnar upplýsingar varðandi merkingu (hvað á að merkja, peysa buxur, logo og/eða nafn) í tölvupósti: starfsmadur@spori.is
Fara með fatnað í merkingu, almennt tekur það um eina viku.

11.02.2020

Almennar styrkreglur

Námskeiðsstyrkir

Sækja um styrk hér.

Almennt

Félagar sem hyggjast sækja um styrk skulu senda inn umsókn á þar til gerðu umsóknarformi sem skal vera félögum aðgengilegt

Skilyrði fyrir styrk er að vera fullgildur félagi í BSH, virkur í starfi flokksins og sveitarinnar og virkur í fjáröflunum (neyðarkallasala, jólatrjáasala, flugeldasala). Þá geta Nýliðar 2 sótt um námskeið í björgunarmanni 1 eða 2 að fengnu samþykki nýliðaþjálfara.

Skila skal inn umsókn vegna námskeiðsstyrkja 14 dögum áður en að námskeið hefst á umsóknarformi eða netfangi – nema annað sé tekið fram. Tekið er tillit til námskeiða sem eru auglýst með styttri fyrirvara.

Námskeið og ráðstefnur hjá SL

  • BSH styrkir öll námskeið björgunarskólans að fullu.
  • Kosti námskeiðið meira en 50.000.- kr. þarf að fá sérstakt samþykki stjórnar áður en sótt er um námskeiðið til þess að eiga kost á að fá styrk.
  • Sé óskað eftir styrk á fagnámskeið leitar stjórn umsagnar hjá formanni viðkomandi flokks og einnig er gerð krafa að félagar sæki leiðbeinendanámskeið, sé það í boði hjá björgunarskólanum,  og komi að kennslu fyrir sveitina.

Aukin ökuréttindi og smáskipanámskeið

  • BSH styrkir eingöngu eftirfarandi námskeið vegna aukinna ökuréttinda: C1, D1 og C1E – D1E. Ef félagi hyggst sækja önnur námskeið skal styrkurinn endurspegla kostnað námskeiðanna sem talin voru upp hér á undan.
  • Ætlast er til að sótt sé um í alla þá sjóði sem viðkomandi á rétt á, svo sem endurmenntunarsjóði hjá verkalýðsfélögum og slíkt. Stjórn BSH skal vera meðlimum innan handar
  • BSH greiðir sem nemur 50% af eftirstöðvum námskeiðsgjalda fyrir virka félaga en aldrei hærra en dýrasta námskeið björgunarskólans.
  • Skila þarf inn greiðslukvittun vegna námsgjalda ásamt staðfestingu á að viðkomandi hafi lokið námi með fullnægjandi hætti. Styrkir eru greiddir út að námi loknu.
  • Stjórn fjallar um styrkumsóknir og leitar umsagna hjá formanni viðkomandi flokks.

Námskeið, ráðstefnur og ferðir erlendis

  • Meðlimir BSH geta sótt um styrk til að fara á ráðstefnur og námskeið erlendis.
  • Stjórn BSH sækir um styrk vegna ferðar til Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
  • Umsóknum skal skilað 30 dögum áður en ferð hefst.
  • Skila skal inn upplýsingum um ferðatilhögun, rökum fyrir því hvernig ferðin nýtist viðkomandi í starfi, heildarkostnað og styrkupphæð sem sótt er um
  • Stjórn BSH fjallar um umsóknir
  • Styrkir eru greiddir að ferð lokinni.
  • Miðað er við að styrkur sé ekki hærri en dýrasta námskeið björgunarskólans.
  • Ætlast er til þess að félagi skili inn ferðaskýrslu auk þess sem stjórn BSH getur farið þess á leit að haldin verði myndasýning eða fyrirlestur á sveitarfundi

Önnur námskeið

  • Ef félagar hafa hug á því að sækja námskeið sem falla utan þeirra flokka sem fjallað hefur verið um skal senda erindi til stjórnar að lágmarki 14 dögum áður en námskeiðið hefst. Þar skal gerð grein fyrir á hvern hátt námskeiðið nýtist viðkomandi og BSH. Stjórn BSH fjallar um umsóknir
  • Ætlast er til að sótt sé um í alla þá sjóði sem viðkomandi á rétt á, svo sem endurmenntunarsjóði hjá verkalýðsfélögum og slíkt. Stjórn BSH skal vera meðlimum innan handar
  • BSH greiðir sem nemur 50% af eftirstöðvum námskeiðsgjalda fyrir virka félaga en aldrei hærra en dýrasta námskeið björgunarskólans.

Upplýsingar/Annað

  • Hægt er að sækja um styrk fyrir mat og gistingu svo framarlega að umsækjandi hafi verið virkur í kennslu á námskeiðum fyrir BSH undanfarin þrjú ár.
  • Ætlast er til þess að sveitarmeðlimir verði áfram virkir eftir að styrkur hefur verið þeginn
  • Geti félagi ekki sótt námskeiðið ber hann ábyrgð á því að afskrá sig af námskeiðinu og tryggja að námskeiðið verði ekki gjaldfært á sveitina. BSH greiðir einungis styrk ef umsækjandi situr námskeiðið. Að öðrum kosti er umsækjanda gert að greiða námskeiðskostnaðinn sjálfur.
  • Stjórn áskilur sér rétt til að afturkalla styrk ef þörf krefur, til að mynda ef meðlimur hættir á námskeiði eða hættir við að fara á námskeið.
  • Þessar reglur eru leiðbeinandi fyrir stjórn sveitarinnar.

Einkennisfatnaður

  • Félagar í BSH geta sótt um styrk til kaupa á fatnaði og göllum sem koma sérmerktir frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Eins er hægt að sækja um styrki fyrir öðrum fatnaði sem sveitin hefur komið sér saman um enda nýtist fatnaðurinn vel í starfi sveitarinnar
  • Fatnaður þessi er eingöngu ætlaður til nota til starfa í þágu BSH, Slysavarnafélagsins Landsbjargar eða annara björgunarsveita.
  • Einkennisfatnaður er styrktur um 75% af heildarverði en að hámarki  75% af verði dýrustu flíkurinnar hjá SL.
  • Styrkur skal greiddur til einstaklinga eftir að kaupin fara fram. Ef BSH sér um innkaupin skal hlutur félaga greiddur til sveitarinnar áður en afhending fer fram. Gjaldkeri/aðstoðargjaldkeri sér um innheimtu.

Reglur þessar voru samþykktar á sveitarfundi 31. mars 2022

Nýliðareglugerð

1. grein  

Nýliðanefnd 

Nýliðanefnd hefur yfirumsjón með nýliðaþjálfun og er nýliðaþjálfurum til ráðleggingar og stuðnings. Í nýliðanefnd sitja nýliðaþjálfarar auk tveggja tengiliða úr stjórn.  

Nýliðanefnd metur reglulega stöðuna á nýliðaþjálfuninni. 

Nýliðanefnd metur framgang einstaklinga og hvort þeir hafi staðist þær kröfur sem gerðar eru hverju sinni, svo sem hvort nýliði hafi lokið þeim skyldum sem þarf til að byrja í Nýliðum 2. Nýliðanefnd skilar inn til stjórnar hvaða nýliðar hafa lokið þjálfun og fullnægja kröfum sveitarinnar. 

Í janúar og maí sendir nýliðanefnd upplýsingar um stöðu nýliða á stjórn. 

2. grein 

Nýliðaþjálfarar 

Nýliðaþjálfarar skulu vera fullgildir félagar innan sveitarinnar. 

Stjórn auglýsir á vorin eftir tveimur nýliðaþjálfurum til tveggja ára í senn og skal annar nýliðaþjálfarinn hafa starfað sem fullgildur félagi í sveitinni í að minnsta kosti tvö ár. Nýliðaþjálfarar eru skipaðir af stjórn BSH. Nýliðaþjálfarar skila inn dagskrá til stjórnar fyrir hvort starfsár viku fyrir kynningarfund og fer stjórn yfir þær til samþykktar. 

Nýliðakynning skal haldin á haustin og þar skal kynnt dagskrá næsta starfsárs.  

Nýliðaþjálfurum ber að halda utan um skráningu yfir mætingu á alla dagskrárliði sveitarinnar. Þá skulu þjálfarar tryggja að öllum þátttökulistum og einkunnum sé skilað inn og skráð í grunn Björgunarskólans. Allir leiðbeinendur sem halda utan um námskeið í nýliðaþjálfun skulu standast þær kröfur sem Björgunarskóli SL gerir til leiðbeinanda. 

3. grein 

Inntökuskilyrði í nýliðastarf 

Til að geta gerst nýliði í Björgunarsveit Hafnarfjarðar þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði: 

1. Vera á 18. ári eða eldri þegar nýliðastarfið hefst. 

2. Vera heilbrigður á sál og líkama. 

3. Hafa kynnt sér siðareglur BSH og SL og skuldbinda sig til að starfa eftir þeim. 

4. Hafa þekkingu á íslensku máli og geta bjargað sér við daglegar aðstæður, þess má geta að öll kennsla og próf eru á íslensku. 

5. Hafa veitt skriflegt leyfi fyrir öflun upplýsinga úr sakaskrá.  

4. grein 

Nýliðaþjálfun 

Tilgangur nýliðaþjálfunar er að verða fullgildur félagi í BSH á útkallsskrá. 

Nýliðaþjálfun hefst að hausti og lýkur með nýliðaprófi og inntöku á aðalfundi um það bil 18 mánuðum síðar. Nýliðaþjálfuninni er skipt niður í tvö stig:  Nýliðar 1 og Nýliðar 2 og er hvort starfsár tvær annir. 

Nýliðaþjálfarum er heimilt að taka við nýliðum 1 allt að 4 vikum eftir að kynning á nýliða starfi hefur farið fram ár hvert. Umsóknum sem berast eftir það er vísað til nýliðanefndar. 

Nýliðar 1 er fyrra starfsár nýliðaþjálfunarinnar og skulu nýliðar 1 ljúka eftirtöldu: 

Helgarnámskeið 

  • Ferðamennska og Rötun (kennt saman) 
  • Fyrsta hjálp 1 
  • Fjallamennska 1 (undanfari fyrir Vetrarferð 1 og 2) 
  • Snjóflóð 1 
  • Leitartækni 

Kvöld og dagsnámskeið 

  • Björgunarmaður í aðgerðum 
  • Fjarskipti 
  • Öryggi við sjó og vötn 

Annað

  • Sumarferð (2 nætur) 
  • Vetrarferð 1 (1 nótt) 
  • Kynning á sjóflokk, dagsferð- sigling 
  • Veðurfræði til fjalla 
  • Kynning á sporhundastarfi 

Nýliðar 2 er síðara starfsár nýliðaþjálfunarinnar og skulu nýliðar 2 ljúka eftirtöldu: 

Helgarnámskeið 

  • Snjóflóð 2 
  • Fyrsta hjálp 2 

Kvöld og dagsnámskeið 

  • Tetra fjarskipti 
  • Aðgerðargrunnur 
  • Óveður og björgun verðmæta 
  • Slöngubátar 1 

Annað  

  • Vetrarferð 2 (2 nætur) 

Komist nýliði ekki á námskeið sem að haldin eru á vegum sveitarinnar er það alfarið á hans ábyrgð að ljúka því námskeiði á sama starfsári og námskeiðið var á dagskrá. Nýliðaþjálfari getur aðstoðað viðkomandi að komast í samband við aðrar sveitir til að auðvelda honum að sitja námskeið sem viðkomandi missti af. Í þannig tilfellum greiðir BSH námskeiðskostnað en nýliðinn ferða- og fæðiskostnað. 

5. grein 

Kostnaður 

Öll námskeið og ferðir sem nýliðar sveitarinnar taka þátt í eru á kostnað sveitarinnar en nýliðar taka þátt í fæðis- og gistikostnaði í ferðum og námskeiðum. Á móti taka nýliðar fullan þátt í fjáröflunum sveitarinnar. 

Nýliðar þurfa að verða sér út um allan persónubúnað sjálfir, t.d. útivistarfatnað og útivistarbúnað. 

Innheimt eru félagsgjöld hjá nýliðum eins og fullgildum félögum en það gjald stendur undir slysa- og búnaðartryggingum. 

6. grein 

Ástundun í nýliðaþjálfun. 

Til að ljúka nýliðaþjálfun og taka nýliðapróf er krafist 100% mætingar á skyldunámskeið og 80% mætingar á aðra dagskrárliði nýliða á meðan þjálfunartíma stendur yfir. 

Nýliðar 1 taka þátt í almennu starfi sveitarinnar frá áramótum.  

Nýliðar 2 eru settir á útkallslista og eru boðaðir í útköll. Þar munu þeir taka þátt í að aðstoða við að koma útkallshópum úr húsi, fylgjast með framgangi útkallsins í fjarskiptum og þeirri vinnu sem fer fram hjá hússtjórn á meðan útkalli stendur. Nýliðar 2 aðstoða svo úkallshópa við frágang þegar útkalli lýkur. 

Nýliðar eru bundnir þagnarskyldu varðandi útköll og annað starf sveitarinnar sem varðar þriðja aðila. 

Sumum námskeiðum lýkur með prófi, við úrlausn prófa er tekið tillit til bæði bóklegrar og verklegrar færni. Öðrum námskeiðum lýkur með námsmati leiðbeinanda. 

Nýliði fær tækifæri til að endurtaka próf einu sinni skv. námsskrá Björgunarskólans. 

Endurtektarprófið skal haldið eigi síðar en sjö dögum eftir að námskeiði lauk.  Ef að nýliði stenst ekki endurtektarpróf eða féll á námsmati, skal hann fá eitt tækifæri til að endurtaka það námskeið á sama starfsári. Nýliði sækir þá námskeið í samráði við nýliðaþjálfara og greiðir ferða- og fæðiskostnað vegna þess námskeiðs. 

Falli nýliði á sama námskeiði eftir að hafa setið það tvisvar á nýliðatímabilinu getur viðkomandi ekki haldið þjálfun áfram. 

Á hvoru starfsári skulu nýliðar taka þátt í sem nemur a.m.k 40 klst af fjáröflunum. 

Fjáraflanir BSH eru jólatrjáasala, flugeldasala og sala Neyðarkalls auk annarra fjáraflana. Til að Nýliði 1 teljist hafa lokið þeim kröfum er gerðar eru til að starfa sem Nýliði 2 skal hann hafa lokið lágmarks kröfum um mætingu í fjáraflanir. 

Til að Nýliðar 2 geti tekið nýliðapróf skulu þeir hafa lokið lágmarks kröfum um mætingu í fjáraflanir sem Nýliðar 2. 

Nýliðaþjálfun tekur tvo vetur. Hægt er að sækja um undanþágu til nýliðanefndar um að klára nýliðaþjálfun á lengri tíma en reglugerðin kveður á um. 

7. grein 

Önnur þjálfun 

Stjórn sveitarinnar getur veitt undanþágu frá hluta nýliðaþjálfunar geti viðkomandi sýnt fram á að hann hafi lokið þeim hluta nýliðaþjálfunar annarsstaðar og skal hún þá vera samkvæmt námskrá Björgunarskólans. Viðkomandi getur þá hafið störf með viðkomandi nýliðahóp að höfðu samráði við nýliðaþjálfara. 

8. grein 

Stöðumat nýliða og brottvísanir 

Hafi nýliði brotið siðareglur BSH og/eða SL er heimilt er að víkja nýliða úr nýliðastarfi. 

Nýliðaþjálfarar hafa heimild til brottvísunar í samráði við nýliðanefnd og sér nýliðanefnd um framkvæmd hennar. Brottvísun skal vera rökstudd skriflega. 

Áður en til brottvísunar kemur skal að öllu jöfnu veita viðkomandi áminningu. 

Sé nýliði ósáttur við brottvísun getur hann skotið máli sínu til stjórnar. 

Á því tímabili sem nýliðaþjálfun fer fram sér nýliðaþjálfarar um að gera einstaklingsbundið stöðumat á hópnum og er þá litið til frammistöðu í þjálfuninni. Stöðumatsviðtöl fara að öllu jöfnu fram tvisvar á hverju starfsári. 

9. grein 

Nýliðapróf 

Fyrir inntöku á aðalfundi skal haldið nýliðapróf úr öllum þáttum nýliðaþjálfunarinnar. 

Prófið skal haldið fyrir aðalfund sveitarinnar. Nýliðanefnd skal að taka saman lista með nöfnum þeirra einstaklinga sem lokið hafa tilskyldum námskeiðum og hafa að þeirra mati lokið þeirri þjálfun sem þarf til þess að þreyta nýliðaprófið að minnsta kosti tveimur vikum fyrir prófið. 

Komist nýliði ekki í nýliðapróf af óviðráðanlegum aðstæðum svo sem veikinda eða fráfalls ættingja getur nýliði fengið að ganga inn í sveitina en tekur svo prófið ári seinna. 

Nýliðanefnd er ráðgefandi um gerð prófsins og sér til þess að aðilar frá öllum sviðum sveitarinnar komi að gerð þess.   

10. grein 

Inntaka nýrra félaga 

Nýliðanefnd skilar inn lista til stjórnar fyrir aðalfund sveitarinnar yfir þá nýliða sem hafa staðist námsmat, nýliðapróf og mætingakröfur.  Inntaka nýliða sem fullgilds félaga skal fara fram á aðalfundi eða almennum sveitarfundi með samþykki stjórnar. 
Við inngöngu í BSH fær félagi aðgang að húsnæði sveitarinnar og skáp í búningsherbergi sé því við komið. 

11. grein 

Meðan á nýliðastarfi stendur skal nýliði fara að öllu leiti eftir reglugerð þessari, lögum og siðareglum BSH og SL. Nýliði er skyldugur að fara eftir fyrirmælum fullgildra félaga og annarra leiðbeinenda á æfingum, námskeiðum og í öðru starfi sveitarinnar. Nýliði skal fara að öllu með fyllstu gát og gæta öryggis síns og annarra eins og best er kostur.  Nýliði skal ávallt ganga vel um húsnæði og tæki sveitarinnar. Á meðan nýliðaþjálfun stendur skal nýliði ávallt láta nýliðadagskrá ganga fyrir öðru starfi sveitarinnar. 

12. grein 

Tryggingar 

Allir nýliðar eru tryggðir í störfum sínum með sveitinni samkvæmt þeim tryggingum sem Slysavarnarfélagið Landsbjörg hefur fyrir sína félagsmenn. 

Samið af nýliðanefnd ágúst 2012 
Samþykkt af stjórn BSH 10. september 2012 
Uppfært af stjórn 14.8.2019 

Uppfært af stjórn 17. apríl 2023 

Samþykkt á sveitarfundi BSH 27.4.2023, tekur gildi fyrir nýliðahóp sem byrjar haust 2023 

Reglugerð unglingadeildarinnar Björgúlfs

1.gr 

Unglingadeildin Björgúlfur  

Unglingadeildin Björgúlfur er eining innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar og starfar undir Björgunarsveit Hafnarfjarðar og fer eftir lögum og reglum þess.  

Haldnir eru fundir vikulega yfir árið, umsjónarmenn ákvarða fundartíma ár hvert.  

Unglingadeildin Björgúlfur starfar undir lögum sem Æskulýðsvettvangurinn setur.  

2.gr.  

Að gerast meðlimur  

Þeir sem hafa skilað inn leyfisbréfi, heilsufarsskýrslu og árgjaldi eru meðlimir í Unglingadeildinni Björgúlfi.  

Nýjir meðlimir eru teknir inn að hausti ár hvert.  

Haldnir eru þrír opnir fundir að hausti ár hvert fyrir nýja meðlimi.  

Þeir eru auglýstir sérstaklega ár hvert.  

Unglingar á aldrinum 14-17 ára geta gerst meðlimir.  

Foreldri/forráðamaður skal gefa samþykki sitt fyrir þátttöku unglings í unglingadeildinni.  

3.gr.  

Gildi deildarinnar 

Unglingum skal veitt fræðsla um slysavarnir og björgunarmál á sem víðtækustum grundvelli.  

Unglingum skal gefin kostur á að kynnast öðrum unglingadeildum.  

Unglingar skulu hafa kost á því að taka þátt í þeim uppbyggjandi viðburðum sem Slysavarnafélagið Landsbjörg stendur fyrir. 

4.gr.  

Kostnaður  

Árgjald er sett fyrir hvert ár.  

Stjórn Björgunarsveitar Hafnarfjarðar ákvarðar árgjald.   

Unglingar greiða kostnað í ferðir á vegum unglingadeildarinnar.  

5.gr.  

Ástundun í unglingastarfi  

Krafist er að lágmarki 80% mætingar á fundi og fjáraflanir. 

Viðmiðun í ferðir á vegum unglingadeildarinnar.  

Ef unglingur kemst ekki á fund eða viðburð skal láta umsjónarmenn vita.  

Ef ekki er mætt á 3 fundi í röð án skýringar er litið svo á að unglingur sé hættur í unglingadeildinni og mun vera skráður úr starfinu.  

6.gr.  

Ferðir  

Umsjónarmenn skulu alltaf vera með í ferðum unglingadeildarinnar.  

Umsjónarmenn skulu alltaf bera ábyrgð á þeim ferðum sem unglingadeildin fer í.  

Unglingar skulu skila inn leyfisbréfi fyrir hverja þá ferð sem er lengri en ein nótt.  

Aðrir félagar en umsjónarmenn sem koma með í ferðir þurfa að skila inn heimild til upplýsingaöflunar úr sakaskrá lögreglu fyrir Slysarvarnafélagið Landsbjörg.  

Unglingar eru skyldugir til þess að fara eftir öllum þeim fyrirmælum sem sett eru í ferðum. 

Unglingum ber að fylgja fyrirmælum sinna umsjónarmanna, umsjónarmanna annara unglingadeilda, fullgildra félaga og starfsmanna félagsins. 

Allar almennar reglur gilda einnig í ferðum.   

Nánar í 8. grein.  

Brot á þessum reglum varða brottrekstur úr ferð og ber unglingur/forráðamenn allan kostnað af heimferðinni.  

Umsjónarmenn skulu alltaf ráðfæra sig við foreldra/forráðarmenn um ferðarmáta.  

7.gr.  

Fjáraflanir 

Meðlimir unglingadeildarinnar taka þátt í fjáröflun sveitarinnar. 

Umsjónarmenn fjáraflana skulu vera bakgrunnskoðaðir.  

Unglingar geta alltaf haft beint samband við sína umsjónarmenn í fjáröflunum. 

Umsjónarmenn unglingadeildarinnar skulu geta brugðist við atviki sem unglingur verður fyrir í fjáröflunum á vegum Björgunarsveitar Hafnarfjarðar.  

8.gr.  

Almennar reglur  

Notkun áfengis og vímuefna er með öllu óheimil í starfi unglingadeildarinnar.  

Á einnig við um tóbak, nikótín púða  og rafrettur. 

Unglingum er skylt að gæta þagmælsku um atriði sem leynt skulu fara. 

Þetta á einnig við birtingu mynda.  

Einkennisfatnað ber að virða sbr. reglugerð sem Slysavarnarfélagið Landsbjörg gerir. 

Unglingar skulu alltaf koma klæddir eftir veðri á fundi.  

Sérstaklega er tekið fram að gallabuxur eru ekki leyfðar í starfinu.  

Einelti og áreiti er með öllu óheimilt í starfi deildarinnar.  

Húsreglur Björgunarsveitar Hafnarfjarðar skulu virtar að fullu. 

Símar og tölvur eru ekki leyfilegar á fundum nema með leyfi umsjónarmanna. 

Brot á þessum reglum getur valdið brottrekstri úr starfi, tímabundið eða að fullu.  

9.gr.  

Áminning og brottrekstur 

Við brot á reglum skal unglingur fyrst fá munnlega áminningu frá umsjónarmanni. Foreldri/forráðamaður og stjórn skal látin vita.  

Ef unglingur bætir ekki hegðun sína /athæfi sitt skal gerð skrifleg áminning.   

Stjórnarmeðlimur og umsjónarmaður skulu báðir sitja foreldrafund að unglingi viðstöddum.  

Áminningin skal vera undirrituð af stjórnarmeðlim og umsjónarmanni. 

Ef meðlimur bætir ekki hegðun sína / athæfi sitt eftir skriflega áminningu veldur það brottrekstri úr starfi. Tímabundið eða að fullu.  

Skal það gert með sama fyrirkomulagi og skrifleg áminning. 

10.gr.  

Umsjónarmenn  

Umsjónarmenn skulu vera fullgildir félagar í Björgunarsveitar Hafnarfjarðar  

og hafa náð 20 ára aldri.  

Umsjónarmenn eru ábyrgir fyrir starfinu ásamt stjórn.  

Einn umsjónarmaður skal vera tengiliður við stjórn.  

Einn stjórnarmeðlimur skal vera tengiliður við unglingadeildina.  

Umsjónarmenn eru skipaðir af stjórn Björgunarsveitar Hafnarfjarðar ár hvert. 

Nýjir umsjónarmenn eru skipaðir í samráði við sitjandi umsjónarmenn.  

Umsjónarmenn unglingadeildarinnar þurfa ár hvert að skila inn heimild til upplýsingaöflunar úr sakaskrá lögreglu sem Slysavarnafélagið Landsbjörg gerir. 

Umsjónarmenn bera ábyrgð á öryggi meðlima í starfinu ásamt stjórn Björgunarsveitar Hafnarfjarðar.  

Ef vá ber að, skal stjórn strax látin vita ásamt foreldrum/forráðarmönnum unglings.  

Gögn umsjónarmanna um unglinga eru trúnaðarmál.  

Einungis umsjónarmenn hafa aðgang að þeim gögnum.  

Umsjónarmenn eru bundir þagnarskyldu um þau mál sem kunna að koma fram í samtölum við unglinga og foreldra/forráðarmenn þeirra. 

Umsjónarmönnum ber þó skv. 16. gr. Barnaverndalaga nr. 80/2002 að tilkynna atriði sem kunna að valda unglingi skaða.  

Félagar undir 20 ára aldri og nýliðar 2 mega hjálpa til við unglingastarfið með samþykki umsjónarmanna og stjórn.  

Félagar undir 20 ára aldri og nýliðar eru aldrei ábyrgir fyrir starfinu.  

11.gr.  

Brott umsjónarmanna 

Stjórn skal taka á málum sem varða brot umsjónarmanna.  

Við brot umsjónarmanna á reglum sveitarinnar skal umsjónarmanni skrifleg gefin áminning.   

Ef umsjónarmaður liggur undir grun um refsiverða háttsemi gagnvart lögum skal honum vísað tímabundið úr starfi sem umsjónarmaður unglingadeildar á meðan rannsókn á máli hans stendur yfir. 

Ef brot umsjónarmanns um refsiverða háttsemi telst sannað skal honum vísað úr starfi sem umsjónarmaður að fullu.  

 12.gr.  

Annað 

Unglingar eru tryggðir í öllu því starfi sem tengist unglingadeildinni eða björgunarsveitinni, sakvæmt þeim tryggingum sem Slysarvarnafélagið Landsbjörg hefur fyrir sína félagsmenn.