Eftirfarandi þakkarbréf barst skrifstofu Slysavarnafélagsins Landsbjargar, frá aðila sem var í gönguhóp er bjargað var af Skessuhorni 28. mars sl.
Hjartans þakkir flyt ég öllum þeim er komu og aðstoðuðu okkur í gönguhóp er gekk á Skessuhorn laugardaginn 28 mars sl. er ein úr hópnum hrapaði og slasaðist svo kalla þurfti á björgunarsveitir til að flytja hana á spítala. Er svo innilega þakklát ykkur öllum sem lögðu sig í hættu og fórnuðu sínum tíma og peningum í þessa björgun. Hún tókst fullkomlega og er konan komin heim af spítala og í góðum bata. Við ferðafélagarnir erum öll í góðum gír og höfum fengið stuðning og hjálp allstaðar frá.
Þið eruð hetjur. Hvernig þið komuð þeysandi upp hlíðina með öll ykkar tól og tæki, umhyggju og ólýsanlegan kraft og þor og heita súpu hvað þá annað. Hef aldrei á æfinni upplifað aðra eins fórnfýsi og kærleika. Eitthvað sem ég mun aldrei gleyma og geyma í hjarta mér og vonandi mun þetta gera mig að betri manneskju.
Soffía Rósa Gestsdóttir