Björgunarsveit Hafnarfjarðar tók þátt í gæsluverkefni um síðustu helgi fyrir Ferðafélagið Útivist. Um er að ræða svokallaða Jónsmessugöngu þar sem gengið er yfir Fimmvörðuháls frá Skógum að Básum í Þórsmörk. Lagt er af stað á föstudagskvöldi og gengið yfir nóttina og endað í Básum snemma að laugardagsmorgni. Sveitin hefur tekið þátt í þessu verkefni nokkur ár í röð að undanteknu síðsta ári þar sem eldsumbort á svæðinu settu strik í reikninginn. Þetta var því fyrsta Jónsmessuganga Útvistar eftir gos á Fimmvörðuhálsi.
Ferðin gekk í alla staði vel og tóku 14 meðlimir sveitarinnar þátt í verkefninu. Gönguhópur Útivistar voru þrír talsins í þetta skipti og voru meðlimir samferða þeim yfir hálsinn. Auk þess voru bílar og önnur tæki sveitarinnar til taks með bílstjórum á suðurhluta leiðarinnar. Veður var eins og best verður á kosið og naut göngufólk sólar frá því hún reis og þangað til göngunni lauk. Tekið var gott skoðunarstopp við eldstöðvarnar á Fimmvörðurhálsi. Gígarnir Magni og Móði skörtuðu sínu fegursta í sólarupprás og gengið var upp á þann fyrrnefnda.
Björgunarsveit Hafnarfjarðar þakkar Ferðafélaginu Útivist fyrir samferðina og hlakkar til næstu Jónsmessugöngu.