Það voru fimm manns sem mættu galvaskir að morgni laugardagsins. Vigdís skutlaði hópnum að neyðarskýlinu á Bláfjallaveginum. Við neyðarskýlið voru kortin skoðuð, borðuð ein flatkaka og síðan haldið sem leið lá upp Grindarskörðin. Sem betur voru aðeins þrír jarðfræðingar í hópnum, en þeir fóru mikinn í að útskýra fyrir áhugasömu samferðafólki stórbrotna jarðfræðina. Frá Grindaskörðum var haldið upp Draugahlíðar og upp á Hvirfil sem samkvæmt hafnfirskum kortum er hæsta fjall Gullbringusýslu, 622 m y.s. Víðsýnt var af Hvirfli og skemmtu ferðalangarnir sér vel. Frá Hvirfli var stefnan tekin á Vatnshlíðarhorn og þaðan niður að Kleifarvatni þar sem Vigdís ásamt barnungri norn sótti ferðalangana.
Alls voru gengir 16 km á um 5 tímum og var gaman að ferðast um þetta svæði. Minnti þessi ganga okkur á að ekki þarf alltaf að fara langt til að finna stórskemmtilegt umhverfi og frábær svæði til þess að ferðast um.