EJS og Microsoft Íslandi veittu Björgunarsveit Hafnarfjarðar styrk í vikunni en fyrirtækin færðu sveitinni tvær Dell fartölvur að verðmæti um 900.000 kr.
Tölvurnar koma sér vel og verða hluti af útkallsbúnaði sveitarinnar en eldri vélar hennar urðu fyrir skemmdum vegna ryks og hita þegar þær voru teknar með í leiðangur Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar til Haiti í janúar. Fimm meðlimir BSH voru með í þeirri för.
Í nútíma þjóðfélagi spilar góður tölvukostur eitt af lykilhlutverkum í leit og björgun og eru þessar öflugu Dell tölvur því kærkomin viðbót í tækjasafn björgunarsveitarinnar. Tölvunar eru af gerðinni Dell ATG (All Terrain Grade) sem framleiddar eru til að þola ryk, raka og hnjask betur en hefðbundnar vélar. Þær eru m.a. notaðar af bandaríska hernum og Sameinuðu þjóðunum.
Björgunarsveit Hafnarfjarðar vill koma á framfæri miklu þakklæti til EJS og Microsoft Íslandi fyrir þessa veglegu gjöf. Án aðstoðar fyrirtækja stæðu björgunarsveitir landsins ekki jafn sterkum fótum og raun ber vitni.
Á myndinni eru Lárus Steindór Björnsson og Bragi Reynisson frá Björgunarsveit Hafnarfjarðar, Magnús Norðdahl, forstjóri EJS, Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi og Páll Marcher, vörustjóri EJS.