Um þessar mundir eru tveir félagar úr fjarskiptahóp sveitarinnar að sinna flóttamannaaðstoð í Grikklandi. Þeir Ingólfur Haraldsson og Lárus Steindór Björnsson fóru út 14. október  á vegum regnhlífasamtakana NetHope. Samtökin sjá um að koma á eða bæta fjarskipti til að greiða fyrir samstarfi milli viðbragðsaðila. Þeir Ingólfur og Lárus munu reyna að koma upp hleðslustöðum fyrir farsíma og auka þráðlaust netsamband í flóttamannabúðum. Verkefni Ingólfs og Lárusar felst í að veita flóttafólki á leið sinni um Evrópu betri aðgang að upplýsingum með því að veita því aðgang að netinu á þeim stöðum sem það stoppar á.

Hér eru smá fréttir frá þeim og því sem þeir hafa verið að gera.

Við lentum hérna á miðvikudegi í síðustu viku og strax á fimmtudag fór Lárus ásamt David frá NetHope út á eyjuna Lesbos. David var búinn að vera hér í 2 vikur þegar við komum. Á eyjunni Lesbos er megin flóttamannastraumurinn inn til Grikklands en það eru 4km á milli eyjunnar og Tyrklands. Flestir flóttamenn koma að landi á norðan verðri eyjunni og þurfa síðan að koma sér til Mytiline sem er stærsti staðurinn á eyjunni en þarna á milli eru 50 til 60 km.  Þarna kemur fólk á milli á gúmmibátum sem eru vægast sagt lélegir, svo þarf það að ganga upp fyrsta kampinn en oftast fær það far með rútu svo í næsta kamp sem er 17km frá og fær svo rútu eða labbar 40km sem eru restin af leiðinni.  Lárus og David skoðuðu og mátu hvar þarf búnað til að fólk komist á netið til að láta vita heim að það sé í lagi og komið yfir.

Á sama tíma var Ingólfur í Aþenu til að byrja með að leita að flóttamannabúðum en þar áttu að vera 3 til 4 og fann hann einn.  Ingólfur fór síðan til Kos á föstudagskvöldið og var þar fram á mánudag við að koma upp búnaði.  Það eru töluvert færri sem koma þar að landi en vandinn er samt mikill þar líka enda minna samfélag sem tekur þar á móti fólki.

Núna erum Ingólfur og Lárus báðir í Aþenu að bíða eftir búnaðuri sem fer að koma. Svo þarf hugsanlega að taka könnun á fleiri eyjum sem eru nálægt ströndum Tyrklands.

Hægt er að skoða myndir á Facebook síðu Björgunarsveitar Hafnarfjarðar.


Categories: Almennt