Meðlimir Björgunarsveitar Hafnarfjarðar fóru í dag með hjálpargögn til íbúa í Vík í Mýrdal. Um var að ræða öryggisgleraugu og andlitsgrímur enda ekki vanþörf á vegna öskufalls á svæðinu. Að því loknu voru heimamenn aðstoðaðir við að þrífa ösku af leikvöllum barna og lóð dvalarheimilis aldraðra svo eitthvað sé nefnt.
Ástandið er vægast sagt skelfilegt og erfitt að gera sér í hugarlund hvernig það er að búa á svæðinu. Það er okkur því sönn ánægja að geta létt undir með heimamönnum á þessum tímum.