Greinarhöfundur, Erla Kristín

Greinarhöfundur, Erla Kristín

Nýliðaþjálfun 2016-2018, skemmtilegur og lærdómsríkur tími

Eftir því sem árin liðu fór ég að sjá eftir því að hafa aldrei gengið til liðs við björgunarsveit. Í gegnum tíðina hafði ég stundað töluverða útivist og elskaði ævintýramennsku. Ég var í nokkuð góðu formi og sá því fram á að geta gefið heilmikið af mér. Ég nefndi þessar hugrenningar mínar eitt sinn við fullgildan björgunarsveitarmann. Hans svar var stutt og laggott: ,,Af hverju drífur þú þig ekki bara í þetta?” Ég var þá 46 ára og taldi mig alltof gamla í hlutverk sem þetta en viðkomandi taldi svo ekki vera. Það var síðan haustið 2016 sem ég sá auglýsingu um kynningu á nýliðastarfi Björgunarsveitar Hafnarfjarðar. Þangað fór ég og eftir það var ekki aftur snúið.

Við tók átján mánaða fjölbreytt og ströng þjálfun sem fólst meðal annars í námskeiði í fyrstu hjálp, kennslu í fjarskiptum, leit í snjóflóðum, fjallamennsku, ferðamennsku, rötun, leitartækni og meðferð slöngubáta svo fátt eitt sé nefnt. Þá hittumst við á æfingum og fundum einu sinni í viku, fórum í tveggja daga sumarferð og tveggja daga vetrarferð þar sem skipulagningin var alfarið á okkar herðum auk þess sem við þurftum að bera allan búnað og kost á bakinu og sofa úti.

Þrettán einstaklingar af þeim þrjátíu sem mættu til kynningarfundarins þreyttu síðan nýliðaprófið 7. apríl 2018 og fóru í gegnum alla þjálfunina. Ég get alveg viðurkennt að ég kveið svolítið fyrir prófinu því mín eina vitneskja var að það stæði yfir frá kl. 18 á föstudegi til sama tíma daginn eftir of farið yrði skriflega yfir það námsefni sem við höfðum lært. Prófdagurinn rann síðan upp bjartur og fagur og prófskrekkurinn fjaraði út að mestu. Við, nýliðarnir, mættum niður í Klett, fullir eftirvæntingar að takast á við það sem að höndum bæri.

Nýliðunum var skipt upp í þrjá hópa. Minn hópur byrjaði á því að fara í sjóverkefni sem fólst í því að fara á slöngubát til leitar að ölvuðum manni sem sést hafði til á samskonar bát við höfnina. Leitin gekk vel, maðurinn fannst og var komið upp í okkar bát og hans dreginn til hafnar. Eftir það tók við skriflegt próf og síðan rötunarverkefni sem fólst í því að við fengum uppgefinn upphafspunkt og endapunkt ásamt landakorti og áttavita. Við áttum að skipuleggja leiðina sjálf, bæta við nokkrum punktum og taka stefnuna með áttavitanum.

Þegar allt var orðið klárt var okkur hent út í svarta myrkur og kafaldsbyl, kl. 23:30 við Höskuldarvelli. Ferðin gekk hægt sökum þess að töluverður snjór var á svæðinu og einn nýliði meiddist á fæti sem varð til þess að við þurftum að taka á okkur góðan krók svo hægt yrði að sækja hann. Það hafðist allt að lokum og í skátaskálann við Kleifarvatn vorum við komin kl. 07:10 að morgni laugardagsins. Þar biðum við eftir því að hinir hóparnir kæmu í hús, nærðumst og náðum úr okkur mesta hrollinum. Síðasti hópurinn kom síðan í hús um kl. 08 og fékk hann klukkustund til að jafna sig. Eftir það var komið að því að ganga frá, enda kominn nýr endapunktur fyrir hópinn. Okkur var því ekki til setunnar boðið þrátt fyrir að hafa ekkert sofið um nóttina og vera orðin úrvinda af þreytu.

Allur hópurinn arkaði því af stað upp í Vatnshlíð þaðan sem við vorum sótt og ekið í Kaldársel. Þar var okkur aftur skipt upp í þrjá hópa og látin leysa ýmis verkefni. Minn hópur byrjaði á sjúkraverkefni sem fólst í því að hlúa að og búa um sjúkling. Síðan tók við bílaverkefni sem fólst í því að tappa dekk, spila upp bíl og læra á búnaðinn í bílnum. Þá fórum við í sig í sprungu og snjóflóðaýla leit. Lokaverkefnið sneri að leitartækni. Fjórir krakkar úr unglingastarfinu höfðu farið hjólandi upp í Kaldársel og ætlað að ganga á Helgarfell en ekki skilað sér til baka. Hjólin þeirra voru í Kaldárseli og okkar verkefni fólst í því að finna þau. Leitina skipulögðum við sjálf: Stjórnun – áætlun – bjargir – framkvæmd.

Krakkarnir fundust síðan víðsvegar um svæðið í misjöfnu ásigkomulagi. Tveir gátu gengið sjálfir, einn þurfti að bera og annan þurfti að flytja af toppi Helgafells með þyrlu. Ég get alveg viðurkennt það að undir lok dags, þegar einn var enn ófundinn og ég ákvað að fara upp á Helgarfellið til leitar hugsaði ég: Er ég virkilega að fara þarna upp, algerlega ósofin og búin að vera á gangi eða hamast meira eða minna í 22 klukkustundir? Ferðin upp var hins vegar mun auðveldari en ég átti von á og þegar á toppinn var komið, fann ég það með sjálfri mér, að hefði líf verið í húfi, hefði ég getað farið nokkrar ferðir til viðbótar.

Þeir átján mánuðir sem nýliðaþjálfunin stóð yfir voru skemmtilegur og lærdómsríkur tími. Hópurinn var vel samstilltur og innan hans og sveitarinnar hef ég kynnst mörgu góðu fólki. Ég vil meina að skammstöfunin okkar BSH, standi ekki bara fyrir Björgunarsveit Hafnarfjarðar, heldur einnig fyrir Bestu Sveit í Heimi. Það var stoltur hópur sem skrifaði undir samning við BSH þann 12. apríl síðastliðinn. Við vorum stolt af sjálfum okkur yfir að ná tilskyldum skilyrðum og stolt af því að fá að starfa með sveitinni um ókomin ár.

Erla Kristín Birgisdóttir.

 

Greinin var birt í áramótablaði Björgunarsveitar Hafnarfjarðar 2018, bls. 10, en við uppsetningu á blaðinu klipptist því miður neðan af greininni og er hún því hér birt að fullu. Ritstjórn blaðsins harmar mistökin.