Björgunarsveit Hafnarfjarðar gekk frá kaupum á nýjum blóðhundi s.l. haust. Eftir stranga leit að rétta hundinum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum fannst rétta vinnuhundaefnið fyrir sveitina í Kaliforníu. Um er að blóðhundstík frá ræktanda sem hefur séð okkur fyrir síðustu þremur hundum. Eftir fjölmargar læknisskoðanir og eftirlit, bólusetningar og einangrun er tíkin loks komin heim í Hafnarfjörðinn. Tíkin er 22 mánaða gömul, frekar smágerð og kvik í hreyfingum.

Framundan eru strangar æfingar í umhverfisþjálfun, líkamsuppbyggingu, þolþjálfun og að sjálfsögðu leitarþjálfun. Markmið sveitarinnar er að tíkin standist úttektarreglur Slysavarnafélagsins Landsbjargar fyrir sporhunda innan árs.

Björgunarsveit Hafnarfjarðar hefur þjálfað sporhunda óslitið frá 1960 og hefur því safnast mikil reynsla tengd þjálfun þeirra í sveitinni. Sporhundur er þjálfaður til að leita að og rekja spor eftir einn ákveðinn einstakling og kemst hundurinn á sporið með því að lykta af klæðnaði eða öðrum persónulegum munum þess týnda. Kristín Sigmarsdóttir verður umsjónarmaður og þjálfari hundsins.

Categories: Almennt