Hercules vél bandaríska flughersins hlaðin búnaði frá Landsbjörgu

Hercules vél bandaríska flughersins hlaðin búnaði frá Landsbjörgu

Í dag, 12. september hefst þátttaka Slysavarnafélagsins Landsbjargar á SAREX, fjölþjóðlegri björgunaræfingu á Grænlandi. Þar verða æfð viðbrögð við áfalli sem skemmtiferðaskip lendir í við austurströnd Grænlands.

Austurströndin er afskekkt svæði þótt nokkuð sé um umferð skemmtiferðaskipa. Því er ljóst að við stóráfall þar yrði þörf á viðbrögðum frá þeim þjóðum er sitja í Norður Heimskautsráðinu.

Þrjár björgunarsveitir frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg eru þátttakendur í SAREX; Björgunarsveit Hafnarfjarðar mun sjá um rekstur stjórnstöðvar og aðstoða við fjarskipti, Hjálparsveit skáta í Reykjavík mun setja upp og sjá um rekstur á búðum fyrir 40 manns og Björgunarsveitin Suðurnes reisir og sér um rekstur greiningarstöðvar í samvinnu við lækna og hjúkrunarfólk frá danska hernum.

Búnaður hópsins vegur um 7 tonn en í honum er m.a. að finna sex hjól, ljósvélar, fjögur uppblásanleg tjöld og um eitt tonn af vatni.

Hópurinn mun fljúga með flutingavél frá bandaríska flughernum til Meistaravíkur í Kong Oscars flóa á austurströnd Grænlands en þar var til skamms tíma rekin bandarísk herstöð.
Þar verða settar upp búðir auk þess sem hluti hópsins setur upp sjórnstöð og fjarskipti á Ella eyju sem er innnarlega í flóanum.
Við heimför þarf að ferja allan búnaðinn með þyrlu um borð í varðskipið Þór en hópurinn mun sigla heim með skipinu og er áætluð heimkoma þann 16. september.

Samhæfingarstöð Almannavarna verður virk meðan á björgunaraðgerðum stendur. Þær þjóðir Norður Heimskautsráðsins sem senda búnað og björgunareiningar á svæðið eru auk Íslands: Kanada, Noregur, Bandaríkin, Grænland, Færeyjar og Danmörk.

Smellið á netslóðirnar til að sjá umfjöllun um æfinguna.

Heimasíða danska sjóhersins
Heimasíða danska flughersins

Ýmsar fréttir af æfingunni.

Categories: Almennt