Sporhundur sveitarinnar Perla hefur staðið í ströngu undanfarnar vikur og mánuði.
Grunnþjálfun er lokið, þ.e.a.s. hún þekkir verkefnið sem ætlast er til að hún vinni og er áköf í að leysa það. Þjálfunin er því komin á næsta stig, útkallsþjálfun. Nú er hún þjálfuð við mismunandi aðstæður, innanbæjar sem utan, í öllum veðrum og aldur sporanna og lengd er misjöfn. Ætlunin er að láta Perlu þreyta útkallspróf snemma árs 2013.
Margir hafa aðstoðað með því að ganga sporin fyrir tíkina og eiga þeir þakkir skildar. Sporleggjendur hafa bæði verið félagar BSH, Leitarhunda, Björgunarhundasveitarinnar og fólk ótengt björgunarsveitunum.
Tíkin var flutt inn á vormánuðum frá Bandaríkjunum og varð hún tveggja ára í júní. Kristín sér um þjálfun Perlu og munu þær þreyta útkallsprófið saman sem teymi. Um þessar mundir leitar Kristín að samstarfsfólki til að mynda útkallshóp með tíkinni.
Kynning verður fyrir nýliða sveitarinnar n.k. miðvikudagskvöld og önnur kynning verður á sveitafundi fljótlega.