Sandra á toppi Kala Patthar (5550 m y.s.) með Pumo Ri í baksýn

Sandra á toppi Kala Patthar (5550 m y.s.) með Pumo Ri í baksýn

Nú á vordögum héldu tveir af félögum sveitarinnar, Sandra og Steinþór, til fyrirheitna landsins. Eftir að hafa stundað fræðastörf og brimbretti í Indónesíu var ferðinni heitið á norðlægari slóðir nefnilega til Nepal.

Fyrsta hindrunin á veginum var strax við komun þar sem allsherjarverkfall um allt land setti strik í reikninginn, en voru þau þó mjög fegin að þurfa ekki að ganga frá flugvellinum með allt sitt hafurstask inn í Kathmandu. Þegar þangað var komið var vílað og dílað um ferðatilhögun bak við luktar dyr og með ljósin slökkt hjá leiðsögumannafyrirtækinu en allt hafðist þetta þó að lokum. Loksins var haldið frá Kathmandu til Lukla þar sem við tók stórkostleg ganga upp Khumbudalinn. Stefnan var tekin á “the bottom of the top of the world” eða að rótum sjálfs Everest sem ku vera hið hæsta sinnar tegundar. Gekk gangan vel og voru margir sögufrægir staðir heimsóttir á leiðinni, Lukla, Namche, Tengboche o.fl. Voru ferðalangarnir frá sér numdir yfir fegður fjallanna og þá ekki síst Ama Dablam sem nokkrir félagar sveitarinnar þekkja vel. Í Lobuche sem er í tæplega 5000 m hæð varð Steinþór hæðarveikur og þurfti að lækka sig hið snarasta. Sandra hélt hins vegar ótrauð áfram og heimsótti grunnbúðir Everest (5380 m y.s.) og gekk á tind Kala Patthar (5550 m y.s.) og er þar með sá sveitarmeðlimur farið hefur hvað hæst frá stofnun Björgunarsveitar Hafnarfjarðar.

Leiðir lágu aftur saman í jakuxaþorpinu Dingboche og þaðan var gengið aftur niður til Lukla. Ferðin tók allt í allt tvær vikur og voru ferðalangar yfir sig ánægðir með að kynnast sjálfum Himalaya-fjöllunum. Við komuna til Kathmandu var strax farið að íhuga næstu landvinninga og er þá jafnvel rætt um tinda. Nánar um það síðar…

Steinþór og Sandra á leið yfir eina af mörgum hengibrúm neðarlega í Khumbu-dalnum

Steinþór og Sandra á leið yfir eina af mörgum hengibrúm neðarlega í Khumbu-dalnum

Categories: Almennt