Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hefja í dag nýtt fjáröflunar- og endurvinnsluátak undir heitinu „Svaraðu kallinu!“

Átakið felst í því að björgunarsveitir safna gömlum gsm símum en ljóst er að slíkir símar leynast víða í skúffum og skápum landsmanna. Björgunarsveitirnar koma símunum áfram til þýska fyrirtækisins Greener Solutions sem sérhæfir sig í endurvinnslu og endurnýtingu á gsm símum, og fá greitt fyrir hvert eintak.

Greener Solutions flokkar símana, hluti þeirra fer í endurvinnslu þar sem ýmsir málmar, svo sem gull og palladium, og plastið er endurunnið. Þeir símar sem eru nothæfir eru gerðir upp og sendir til þróunarlanda þar sem þeir eru seldir á vægu verði.

Með þessu átaki hagnast allir; fólk losnar við gömlu símana, styrkir björgunarsveitir, sýnir umhverfisvernd í verki og aðstoðar fátækari íbúa heimsins að eignast síma sem oft koma að góðum notum, bæði félagslega og fjárhagslega.

Björgunarsveitirnar munu taka á móti gsm símum á flugeldasölustöðum um allt land en þeir opna sunnudaginn 28. desember.  Einnig verða settir upp kassar á bensínstöðvum N1 á höfuðborgarsvæðunum sem og í verslunum símafyrirtækja.

Categories: Almennt