Síðastliðinn fimmtudag barst sveitinni útkall vegna útlendings sem hafði orðið viðskila við félaga sína á Eyjafjallajökli.
Strax var ljóst að um alvarlegan atburð var að ræða því jökullinn er illa sprunginn eftir eldgosið og svæðið stórt sem sá týndi gat verið á. Sveitin sendi átta undanfara, fimm bíla, tvo vélsleða og fjórhjól til leitar. Alls fóru frá sveitinni um tuttugu manns sem allir eru vanir jöklaferðum.
Aðgerðin tókst mjög vel og fannst maðurinn eftir töluverða leit í slæmu veðri og lélegu skyggni. Það varð manninum til happs að hann skyldi halda kyrru fyrir þar sem hann týndist og var vel búinn til fjallaferða.
Sveitinni hefur borist eftirfarandi þökk:
Ágætu félagar.
Fyrir hönd Landsstjórnar björgunarsveita vill ég þakka þeim björgunarmönnum sem tóku þátt í aðgerðum vegna leitar á Eyjafjallajöklli 27-28.janúar síðastliðinn. Öguð og fagmannleg vinnubrögð skiluðu þeim árangri sem náðist í leitinni. Grundvallaratriði leitar að týndu fólki var í heiðri haft að „Leit sé neyðarástand sem kallar á tafarlaus viðbrögð“. Í aðgerðinni gekk allt upp og öll vinna björgunarmanna og stjórnenda aðgerða var til fyrirmyndar.
Bestu kveðjur,
F.h Landsstjórnar björgunarsveita
Þorsteinn Þorkelsson, formaður.