Á dögunum barst Björgunarsveit Hafnarfjarðar myndarlegur styrkur frá hlauparanum Gylfa Steini Guðmundssyni sem hljóp heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka til styrktar sveitinni.
Gylfi Steinn hljóp til heiðurs afa sínum, Gylfa Sigurðssyni, fyrrum formanni Björgunarsveitarinnar Fiskakletts og björgunarsveitarmanni til áratuga og bróður sínum, Kára sem er í nýliðaþjálfun hjá Björgunarsveit Hafnarfjarðar. Þá hljóp hann til minningar um Sigurð Darra Björnsson, vin sinn og félaga í sveitinni sem lést árið 2020.
Gylfa Steini tókst að safna 539.500 kr. sem notaðar voru til að kaupa þrjár snjóflóðaskóflur, þrjár snjóflóðastangir, þrjá snjóflóðaýla og þrjú GPS tæki fyrir sveitina. Formaður sveitarinnar, Guðjón R. Sveinsson, tók á móti gjöfinni á sveitarfundi þriðjudaginn 5. febrúar. Viðstaddur afhendinguna var afinn Gylfi Sigurðsson.
Björgunarsveit Hafnarfjarðar þakkar Gylfa Steini og fjölskyldu innilega fyrir þessa höfðinglegu gjöf og hlýhuginn sem henni fylgir. Búnaðurinn er þegar farinn að nýtast sveitinni í starfi hennar.
