Björgunarsveit Hafnarfjarðar hafði í nógu að snúast þessa helgina.

Á föstudag byrjuðu nýliðar á Fjallamennskunámskeiði í Esjunni undir leiðsögn nokkura undanfara sveitarinnar og nokkrir félagar sjóflokks á áhafnanámskeiði björgunarskipa. Þessi námskeið voru svo alla helgina.

Laugardagsmorgun fór vaskur hópur félaga sveitarinnar að bjarga kind er hafði varpað sér niður í Krísuvíkurbjarg.  Sat hún föst í sprungu töluvert fyrir neðan bjargbrúnina.  Sveitin er vön vinnu i bjarginu og tók því ekki langan tíma að ná kindargreyinu upp á brún.

Að björgun lokinni smellti bílaflokkur sér svo á Lyngdalsheiði og Skjaldbreið.  Á sama tíma og bílar náðu á topp Skjaldbreiðs kom símhringing og beiðni um aðstoð.  Fjögurra manna fjölskylda var stopp á biluðum bíl við rætur fjallsins.  Var því lítið annað að gera en að draga bílinn niður að Gjábakkavegi og bjóða fólkinu far í bæinn.

Um kvöldmatarleyti var tilkynnt um slys á manni í Esjunni.  Undanfarar voru með nýliða sveitarinnar á  námskeiði í skálanum Þrist sem er undir Móskarðshnjúkum og buðu fram aðstoð sína sem var þegin.  Bílarnir voru þá á heimleið við Þingvelli og brugðust einnig við kallinu.  Manninum var því næst komið í þyrlu og þeir sem komu að manninum keyrðir til byggða.

Góð helgi.