Rétt fyrir kl.9:00 í morgun staðfesti LHG að gosmökkur kæmi úr Eyjafjallajökli, en á áttunda tímanum í morgun fór hún í loftið, ásamt raunvísindamönnum.  Nær hann í 12-14.000 feta hæð.  Er gatið á jöklinum rétt suð-vestur af toppi jökulsins og er um 200 metrar í þvermál.  Samt sem áður virðist sem að rennsli úr jöklinum streymi niður Gígjökul og út í Markarfljót.  Vatnsmagnið í Markarfljóti, við gömlu brúna hafði hækkað um 80 cm á mjög stuttum tíma.

Mikill jarðskjálftaórói hófst í jöklinum um kl.23:00 í gærkvöldi og mældist sterkasti skjálftinn 2,8 á Richter, en stöðug virkni var til kl.02:00 í nótt.

Mynd tekin frá mbl.is

Fyrstu björgunarsveitirnar voru kallaðar út um kl.01:30, en þeirra hlutverk var að aðstoða við rýmingu og upplýsa bílstjóra um yfirvofandi eldgos, en ekki kom til lokunar á umferð fyrst um sinn.  Um kl.04:00 var farið í að loka svæðinu fyrir umferð, frá Skógum að Hvolsvelli.