jolatre_med_opnunartimaJólatrjáasala vetrarins er komin á fullt. Salan hófst miðvikudaginn 12. des á hádegi og stendur fram á Þorláksmessukvöld.

Jólatrjáasalan er í Hval, á horni Flatahrauns/Reykjavíkurvegar, þar sem við höfum verið um árabil. Salan er starfrækt af sjálfboðaliðum sveitarinnar og með meðbyr frá velunnurum líkt og Hval ehf., Húsamiðjunni, Te & Kaffi ásamt fleirum. Kaffi og kakó á könnunni og piparkökur til að gefa tóninn fyrir hátíðarnar.

Opnunartími einstöku jólatrjáasölunnar er:
Virka daga : 13:00 – 21:30
Laugardaga og sunnudaga : 10:00 – 21:30

Í desember fara fram fjáraflanir sveitarinnar fyrir komandi ár. Við seljum falleg, einstök jólatré í upphafi mánaðar og flugelda í lok árs. Þessar fjáraflanir sem og salan á Neyðarkallinu í nóvember er það sem heldur sveitinni útkallshæfri, sér okkur fyrir endurnýjun á búnaði og rekstri tækja okkar. Að sögn sveitarmeðlima er jólatrjáasalan ein skemmtilegasta fjáröflunin okkar því þátttakan fylli fólk af jólaanda og náungakærleik, þvílík jákvæð orka streymi frá viðskiptavinum okkar. Við erum Hafnfirðingum og öðrum nærsveitungum afar þakklát fyrir velvildina sem okkur er sýnd og meðbyrinn sem við finnum.

auglysing_jolatre

Við fengum óvæntan gest í söluna til okkar á föstudaginn þegar Forseti Íslands, Guðni Th, Jóhannesson, mætti ásamt fjölskyldu og valdi sitt jólatré. En Guðni er einmitt verndari Slysavarnafélagsins Landsbjargar og einn af okkar bakhjörlum. Krakkarnir voru kátir með tréð sem þau völdu með foreldrum sínum.

Félagi okkar Ómar Örn tók upp skemmtilegt myndband í jólatrjáasölunni um helgina sem sýnir vel hversu falleg einstöku trén eru í ár og hversu skemmtilegt börnunum þykir að koma og velja sitt eigið tré. Myndbandið má sjá hér á efnisveitu okkar á Facebook. Munið að smella “like” á okkur þar og fylgjast með fréttum úr starfi okkar.

Þá rötuðum við í fréttirnar en Morgunblaðið fjallaði um jólatrjáasölu í gærkvöldi.

Þið fáið einstakt jólatré í Hval, jólatrjáasölu Björgunarsveitar Hafnarfjarðar.