Sporhundur við vinnu Mynd frá Öskju

Sporhundur við vinnu
Mynd frá Öskju

Sporhundar sveitarinnar sjást á ferð og flugi um höfuðborgarsvæðið þessa dagana. Mikið er um æfingar en Þórir umsjónarmaður hundana og þjálfari æfir tíkurnar samviskusamlega til skiptis þó megnið af tíma hans fari í að byggja upp reynsluna hjá Urtu sem er yngri tíkin og eingöngu búin að sinna útköllum í örfáa mánuði. Eldri tíkin Perla er nú talin vera á hátindi miðað við aldur og reynslu okkar af endingu og nýtingu fyrri hunda. Báðar eru þær blóðhundar og innfluttar sérstaklega til leitar- og björgunarstarfa.

Svo íbúar Hafnarfjarðar og nágrannasveitarfélaga geta búist við að sjá hund með mann í eftirdragi rjúka framhjá sér hvenær sem er :-). Hundarnir eru auðþekktir enda einu blóðhundar landsins og Þórir þekkist auðveldlega á einkennisfatnaði björgunarsveitanna. Áhersla hjá Þóri er á innabæjarleitir þar sem áreitið er mikið og mikið um utanaðkomandi truflanir. Þetta reynir talsvert á athyglisgáfur og einbeitingu hundanna en blóðhundar eru mjög einbeittir í vinnu sinni og góðir í að leiða truflun hjá sér séu þeir rétt þjálfaðir. Stór hluti útkalla fyrir sporhundanna er einmitt innanbæjarleitir og því mikilvægt að þeir séu sterkir á þessu sviði.

Við þökkum fyrir alla tillitssemi og velvild sem við finnum fyrir í garð hundanna við æfingar. Tillit við hundana hjálpar til við æfingar og segir Þórir það aldrei vera vandamál að utanaðkomandi fólk komi og beinlínis trufli æfingarnar. Stundum þurfi hann til dæmis að koma in í anddyri fyrirtækja vegna þess að lyktin af hinum týnda hafi borist þar inn og fær hann alltaf hlýjar viðtökur þó stoppið sé iðulega örstutt.  Við bendum fólki á að vera vakandi fyrir þessu flotta hundateymi í umferðinni, einkum núna í myrkrinu og í jólaumferðinni sem vill þyngjast töluvert í desember.