Lífið hjá Björgunarsveit Hafnarfjarðar er smám saman að færast aftur í sitt eðlilega horf eftir jólatrjáa- og flugeldasölur og starf flokkanna er komið af stað. Hér verður stiklað á stóru úr starfinu sl. mánuð og dagskrá næstu vikna.
Helgina 17. til 19. janúar hélt fjölmennur hópur nýliða og fullgildra félaga á námskeið í fjallamennsku. Dvalið var í skála Skátafélags Akraness við Skorradalsvatn og farið í ýmsar æfingar þar í kring, svo sem í broddagöngu, línuvinnu, ísaxarbremsu, mati á snjóflóðahættu og ýlaleit. Á heimleið á sunnudeginum kom hópurinn við í Eilífsdal í Kjós og æfði tryggingar, sig og klifur í Valshamri. Mikil ánægja var með námskeiðið og ekki verra að þarna gafst tækifæri til að styrkja og efla bönd milli félaga sveitarinnar.


Sjóflokkur hefur farið út að sigla, sleða- og fjórhjólaflokkur æft sig í snjónum, landflokkur leitaði að og safnaði flugeldaúrgangi og nú í vikunni sá bílaflokkur um útkallsæfingu fyrir sveitina. Í gærkvöldi fór unglingadeildin Björgúlfur svo í fjallgöngu upp á Úlfarsfell þrátt fyrir leiðindaveður.
Nóg er um að vera næstu daga og vikur en nú um helgina ætlar landflokkur í sína vetrarferð. Ferðaáætlunin hefur tekið breytingum vegna veðurs en til stendur að leggja í hann á laugardag og dvelja eina nótt í tjaldi í upplandi Hafnarfjarðar.
Þriðjudaginn 4. febrúar er komið að sveitarfundi sem haldinn verður í fundarsalnum á þriðju hæð kl 20:00. Fimmtudagskvöldið 6. febrúar verður eldri félaga hittingur haldinn í þriðja sinn, en þessir hittingar hafa vakið mikla lukku meðal virkra og fyrrum virkra félaga. Fjáraflanaslúttið verður svo á sínum stað laugardaginn 8. febrúar en þá ætlum við að uppskera eftir krefjandi fjáraflanatörn.