Björgunarsveit Hafnarfjarðar skellti sér í vetrarferð að Strút á Mælifellssandi um síðustu helgi. Lagt var af stað á föstudagskvöldi og farið um Emstruleið vestan Mýrdalsjökuls upp í fjallaskála Útivistar við Strút. Gisti hópurinn þar í tvær nætur en á laugardeginum bættust nokkrir félagar í hópinn sem komu brunandi yfir Mýrdalsjökul á vélsleðum.
Hópurinn gekk m.a. upp á topp Mælifells sem rís tignarlega upp úr sandsléttunni. Þá var leikið sér uppi á Mýrdalsjökli þar sem vélsleðar og jeppar skiptust á að draga skíðamenn upp jökulinn svo þeir gætu svo rennt sér aftur niður. Veðurskilyrði voru eins og best verður á kosið, heiðskírt og nánast blankalogn.
Á sunnudeginum ákvað hópurinn að keyra yfir Mýrdalsjökul í stað þess að fara sömu leið til baka. Útsýnið á leið niður jökulinn var engu líkt þar sem fjöllin, strandlengjan og síðan sléttur sjórinn tóku við af jöklinum. Eftir stutt grillstopp við Skógafoss héldu sáttir ferðalangar heim í Hafnarfjörð.





