Sjóflokkur Björgunarsveitar Hafnarfjarðar hefur haft í nógu að snúast um helgina. Á laugardagskvöldi var óskað eftir aðstoð flokksins á þingvallavatn vegna vélarvana báts sem rak um vatnið. Slöngubátur sveitarinnar var gerður klár og bátastjórnendur tóku saman búnað fyrir verkefnið. Myrkur var á svæðinu og frekar kalt. Stuttu síðar var aðstoðin afturkölluð og héldu menn heim um 01:00 aðfaranótt sunnudags. Sunnudaginn 3 apríl var óskað eftir aðstoð flokksins vegna vélarvana báts við hafnarfjörð. Fiskaklettur harðbotna björgunarbátur sveitarinnar fór fljótt af stað og dró bátinn til hafnar en lítil hætta var á ferðum. Þá barst beiðni um að ná í annan bát á syðrahraun sem er um 14 sjómílur frá hafnarfjarðarhöfn. Einar Sigurjónsson björgunarskip sveitarinnar hélt af stað og dró bátinn til hafnar.
Einnig hélt flokkurinn námskeið í notkun björgunarbáta fyrir flugfreyjur Iceland Express en þetta er árlegt námskeið þar sem er farið yfir björgunarbáta og atriði tengd sjóbjörgun. Þetta námskeið er mikilvægt fyrir áhafnir flugvéla til að geta brugðist rétt við ef flugvél fer í sjóinn. Námskeiðið gekk mjög vel og voru allir þáttakendur ánægðir með kennsluna.
Það má því segja að flokksmenn hafi haft í nógu að snúast þessa helgina.