Vetrardagskrá Björgunarsveitar Hafnarfjarðar er nú komin á fullt. Nýliðar þreyta námskeið, undirbúningur fyrir fjáraflanir er hafinn og flokkar sveitarinnar æfa ýmis atriði reglulega. Á dögunum komu góðir gestir í heimsókn á mánaðarlegan sveitarfund. Það voru Gunnar Már Torfason félagi úr Hjálparsveit skáta Hafnarfirði og meðlimir úr Bárunni, félagi smábátaeigenda í Hafnarfirði og Garðabæ.
Gunnar Már hélt upp á níræðisafmæli sitt í sumar og bað gesti sína um gefa peninga í sjóð í stað gjafa. Gunnar Már gaf síðan peningana sem söfnuðust til fjarskiptahóps Björgunarsveitar Hafnarfjarðar sem keypti Honda rafstöð. Gunnar Már mætti sjálfur með fjölskyldu sína og afhenti styrkinn.
Félagar úr Bárunni tóku sig saman og gáfu sveitinni 200 þúsund krónur en sveitin hefur komið þónokkrum félögum Bárunnar til aðstoðar síðustu ár. Sveitin þakkar þessum aðilum sérstaklega fyrir gjafirnar sem munu svo sannarlega koma sér vel í starfinu.