Skaftárketill Eystri í baksýn

Skaftárketill Eystri í baksýn

Fjórhjólahópur skellti sér inn í Jökulheima á miðvikudagskvöldið og gisti þar yfir nótt.  Að morgni fimmtudags var haldið upp á Vatnajökul og keyrðir nánast 100km.  Færið upp jökulinn var frekar þungt, blautt og mikil sólbráð.  Þurfti að stoppa oft á uppleiðinni til að leyfa vélinni að kólna, en ekki reyndist vel að aka hægt í þessu færi.

Í Skaftárkötlum hittum við Vísindamenn frá Vatnamælingum við gagnaöflun frá mælistöðvum.  Rennt var aðeins ofar á jökulinn en mun þéttara og betra færi var yfir 1600m.  Reynd voru ný 27″ dekk á hjólin í ferðinni og komu þau mjög vel út.  Í þessu færi var eldsneytiseyðsla þó mun meiri en vanalega í eða um 30L/100km.  Hjólin fóru létt með krapann neðst á jöklinum og var einstaklega auðvelt að aka þeim gegnum jökulruðninga.

Þessi ferð er enn ein ábendingin um fjölhæfi og góða yfirferð þessara tækja í björgunarstarfi og hafa þau reynst okkur vel í þeim útköllum sem þau hafa verið nýtt í.

Categories: Æfingar