Verið að hjálpa Gumma að græja sig fyrir köfunSeinustu tvær helgar hefur verið nóg um að vera í Njarðvíkurhöfn en kafarar frá SL hafa verið þar á leitarköfunarnámskeiði.
Nokkur ár eru síðan að seinast var haldið námskeið í leitarköfun og því kærkomið að fjölga aðeins í hópunum og fá inn nýja meðlimi.

Að þessu sinni tóku tveir kafarar frá BSH, þau Guðmundur Sveinbjörn og Elíza Lífdís, þátt, sem og þrír kafarar frá BSS. Í heildina vorum við þó mest 11 með leiðbeinendum, línumönnum og bátafólki og því ljóst að kafarar þurfa að vera í góðu samstarfi við sjóflokk.

Námskeiðið gengur eins og nafnið gefur til kynna að miklu leiti út á það að kafa og leita en þó eru margir þættir sem að þarf að hafa á hreinu áður en stokkið er út í.
Í leitarköfun er kafarinn tengdur við yfirborðið með línu þar sem að svokallaður línumaður (e. tender) heldur í hinn endann og hefur samskipti við kafarann með línumerkjum. Æfðum við þau í þurræfingum á landi áður en haldið var niður á bryggju.

Línumaður sér um að fylgjast með því hvað kafarinn er að gera, að hann sé að leita það svæði sem að honum er ætlað að leita, gefa honum leiðbeiningar hvert hann á að fara og gæta öryggis kafarans. Allir kafara æfa sig í að vera línumenn og þjálfast þannig í því að vera á báðum endum.

Kafararnir þurfa einnig að æfa sig í því að leita í litlu sem engu skyggni og að starfa sem línumenn við misgóðar aðstæður.
Sú var einmitt raunin seinustu helgi þegar við fengum allt frá glampandi sól og logni (já þið lásuð rétt, það var logn á Reykjanesinu) yfir í slyddu og lemjandi norðaustanátt. En það er nú bara veruleikinn sem að við búum við og því ágætt að þjálfast í því hvernig við tökumst á við mismunandi veðráttu enda að ýmsu að hyggja þegar þú ert með blautan kafara sem að þarf að bíða uppi á bryggju á milli kafanna.

Seinasta daginn á námskeiðinu höfðu Suðurnesjamenn komið bíl fyrir í höfninni og fengum við að kafa í hann og æfa okkur á þeim aðstæðum.

Náið samstarf er á milli köfunarhóps og sjóflokks BSH enda samofið starf við leit á sjó. Allir meðlimir köfunarhóps BSH starfa einnig sem sjóflokksmeðlimir og er hópurinn því þéttur. Köfunarhópur BSH samanstendur nú af sjö köfurum með mis mikla reynslu, allt frá rúmu ári upp í áratugi og er það von okkar að hópurinn haldi áfram að dafna.

Þökkum við Suðurnesjasveitinni kærlega fyrir samvinnuna á námskeiðinu sem og leiðbeinendum fyrir vel heppnaðar helgar á hafsbotni.