Spori 1 og Spori 2 uppá Mýrdalsjökli

Spori 1 og Spori 2 uppá Mýrdalsjökli

Síðastliðna helgi fóru fjórir meðlimir bílaflokks í æfingaferð ásamt bílaflokkum HSG, HSSR og HSSK. Mæting var við Olís í Norðlingaholti kl 9 á laugardagsmorgun og voru þá saman komnir 21 manns á 8 jeppum. Loks var farið af stað og stefnan tekin á Mýrdalsjökul. Farið var uppá jökulinn hjá Sólheimahjáleigu og var förinni heitið í átt að Fimmvörðuhálsi. Þegar ferðalangar höfðu fengið nóg af Fimmvörðuhálsi var farið aftur uppá jökul og stefnan tekin í átt að skálanum Strút. Ferðin yfir jökulinn gekk mjög vel og færið mjög gott. Þegar komið var niður af jöklinum byrjaði snjórinn að mýkjast en allt gekk eins og í sögu og komust allir bílar í skálann.

Á sunnudeginum var svo ákveðið að keyra yfir í Hvanngil og stefnan tekin þaðan yfir í Emstrur og niður í Fljótshlíðina. Ekki vildu ferðalangar láta staðar numið þar og því var farið yfir Markarfljótið og keyrt inní Þórsmörk og kíkt í Húsadal og Bása. Að því loknu var haldið heim á leið með stoppi á Gallery Pizzu á Hvolsvelli þar sem hópurinn gæddi sér á dýrindis pítsum.