-Leki um borð í seglskútunni FALADO VON RHODOS

Frásögn Odds Arnars Halldórssonar skipstjóra á björgunarskipinu Einar Sigurjónssyni.

Þann 8. ágúst klukkan 23:20 barst neyðarkall frá seglskútunni Falado Von Rhodos sem stödd var um 16 sjómílur vest-norð vestur af Garðskaga með 12 manns um borð. Vaktstöð siglinga tók á móti neyðarkallinu sem samstundis var áframsent til skipa og báta sem gætu verið á svæðinu.

Björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein í Sandgerði var á þessum tíma í viðhaldsstoppi og því var björgunarskipið Einar Sigurjónsson frá Hafnarfirði kallað út. Jafnframt var ákveðið að kalla út minni og hraðskreiðari báta frá björgunarsveitunum Suðurnes, Sigurvon í Sandgerði og Ægi í Garði auk þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-GNÁ.

Veður á staðnum var austan 10 til 12 metrar, gott skyggni en allnokkur sjór. Klukkan 23:35 kallar skútan inn að aðalvél hennar sé dauð og dælur hættar að virka en að verið sé að lensa með handdælu. Á sama tíma var björgunarskipið Einar Sigurjónsson að leggja úr höfn í Hafnarfirði með dælur og mannskap ásamt björgunarbátnum Fiskakletti. Tveir togarar, þeir Hrafn Sveinbjarnarson og Baldvin Njálsson, sem voru á nálægum slóðum höfðu einnig tilkynnt að þeir ætluðu að halda á staðinn en að þeir væru ekki með neinar færanlegar dælur um borð.

Léttabátur af Hrafni Sveinbjarnarsyni var komin á staðinn en illa gekk að nálgast skútuna. Þyrla Landhelgisgæslunnar kom skömmu síðar en gat ekki athafnað sig vegna mastra á skútunni og sjólags. Því reyndist þyrlubjörgun ekki möguleg nema að fólkið færi fyrst frá borði og um borð í björgunarbát. Var því ákveðið að bíða átekta eftir að björgunarskip og bátar kæmu á svæðið og þyrlan yrði stand-by í Keflavík á meðan. Áætlað var að fyrstu björgunarbátarnir kæmu á staðinn rétt fyrir klukkan eitt eftir miðnætti.

Er björgunarbáturinn Gunnjón frá Ægi í Garði kom á staðinn var kominn töluverð slagsíða á skútuna og taldi áhöfn Gunnjóns illmögulegt að komast um borð. Skipstjóri skútunnar taldi þá að ekki myndi líða nema klukkustund þar til hún sykki. Björgunarbáturinn Njörður var kominn á staðinn og reyna átti að koma taug á milli skútunnar og Hrafns Sveinbjarnarsonar og draga hana til móts við Einar Sigurjónsson en áhöfn skútunnar átti í erfiðleikum með að skilja hvað þeir áttu að gera við spottann sem þeim var réttur. Björgunarbáturinn Fiskaklettur kom á staðinn klukkan rúmlega tvö og tókst þeim að koma manni og dælu um borð.

Það var ekki fyrr en á þessum tímapunkti að í ljós kom að af 12 manns um borð í skútunni voru sjö börn. Skátafélag í Þýskalandi átti skútuna og var hún á leið frá Rifi til Vestmannaeyja en þar átti nýr hópur frá skátafélaginu að taka við henni. Fólkið um borð var illa klætt, margir á nærbuxum og stuttermabolum, og orðið blautt og kalt. Hafist var handa við að koma fólkinu yfir í Einar Sigurjónsson í skjól og flutti björgunarbáturinn Þorsteinn frá Sandgerði börnin yfir í hann. Börnin hresstust fljótt og því ekki talin ástæða að koma þeim tafarlaust til hafnar heldur ákveðið að reyna að bjarga skútunni. Freista átti þess að láta Einar Sigurjónsson draga hana til Sandgerðis. Byrjað var að dæla og taug komið milli Einars Sigurjónssonar og skútunnar. Allt var komið út um allt um borð í skútunni og gekk erfiðlega að dæla þar sem fatnaður og fiður úr sængum og koddum stífluðu dælurnar. Eftir margítrekaðar tilraunir hættu menn að reyna að dæla meir og yfirgaf áhöfn skútunnar og björgunarmenn hana.  För Einars Sigurjónssonar með skútuna í eftirdragi gekk afar hægt, ef siglt var hraðar en þrjár mílur kafsigldi skútan. Fólkið um borð var auk þess orðið kalt og hrakið og margir orðnir sjóveikir. Um klukkan fimm var ákveðið að skera skútuna lausa frá Einari Sigurjónssyni og sökk hún skömmu síðar. Komið var með fólkið til hafnar í Sandgerði um klukkan sex um morguninn og var það flutt í björgunarstöðina hjá Sigurvon í Sandgerði þar sem starfsmenn þýska sendiráðsins tóku á móti því.

Alls tóku 18 manns þátt í aðgerðinni (utan áhafna togaranna og fólks í landi) á fjórum björgunarbátum og einu björgunarskipi. Samstarf hópanna sem komu að björguninni gekk afar vel sem sýndi sig hversu mikilvægt er að hafa vel þjálfaðan mannskap og öflug tæki sem brugðist getur við verkefnum sem þessum á sjó.

Categories: Sjóflokkur