Í byrjun október mánuðar fór ég í námsferð til Denver í Bandaríkjunum til að kynna mér hundaþjálfun. Ég sótti tvö námskeið og var dvölin 7 dagar að lengd. Ég var með svokallaðan áhorfenda aðgang að námskeiðunum en eins og þið þekkið er stórmál að fara með hunda út fyrir landsteinana og heim aftur. Ferðin var farin á vegum Björgunarsveitar Hafnarfjarðar og í samstarfi við Leitarhunda Slysavarnafélagins Landsbjargar, með mér voru tveir þjálfarar á þeirra vegum úr Ársæli og úr Gerpi.

Fyrra námskeiðið var svokallað “HRD” námskeið en þar var kennd leit að látnu fólki og líkamsleifum. Námskeiðið var 2 dagar og var byggt upp á raunverulegum verkefnum sem hundamenn fengu að glíma við. Leiðbeinandi var Brad Dennis frá Klaas Kids Foundation. Farið var í gegnum helstu stig niðurbrots í líkamanum og lyktina sem verður til við hvert stig. Þá var farið í umhverfisáhrif og aðra áhrifa þætti sem geta hraðað eða hægt á niðurbrotinu. Æfingar voru settar upp í vatni, víðavangi, almenningsgarði, utan á byggingum, húsleitir og bílaleitir. Margar tegundir hunda voru á námskeiðinu og var mjög áhugavert að sjá þá glíma við ólík verkefni.

Seinna námskeiðið var sporleitar námskeið. Lögð var áhersla á innanbæjarleitir eða Urban Trailing. Námskeiðið var 4 dagar og var það nær eingöngu verklegt. Leiðbeinandi var John Salem fyrrverandi lögreglumaður og blóðhundaþjálfari og var námskeiðið haldið á vegum Georgia K9. Hundamenn voru á ýmsum stigum þjálfunar, frá byrjendum upp í lengra komna. Þeir fengu allir raunveruleg dæmi og mikil handleiðsla var með uppsetningu á æfingum. Þá var einnig lögð áhersla á að hundarnir væru þjálfaðir til að taka lykt af hinum týnda af ólíkum hlutum og við ólíkar aðstæður (en ekki eingöngu einblína á að nota fatnað af viðkomandi þar sem því væri ekki alltaf hægt að koma við) t.d. var notast við skó, minnisblokk, vatnsflösku, kaffibolla, dagblaðabunka, hurðarhún, sæti svo eitthvað sé nefnt. Námskeiðið var mjög áhugavert og á eftir að koma að góðum notum við vinnu í sporhundahópnum. Þá var gaman að því að fá að taka aðeins í hundataum en sett var upp verkefni fyrir mig, stutt slóð, sem ég rakti með 10 ára gömlum Golden Retriever hundi.

Blóðhundurinn okkar Perla við æfingar í október 2013

Blóðhundurinn okkar Perla við æfingar í október 2013

Tvær gullnar setningar hafði ég upp úr krafsinu og koma þær frá sitthvorum hundaþjálfaranum og af sitthvoru námskeiðinu:
We train to be MISSION CAPABLE not to simply PASS A TEST…” og hin var “Train like you fight and fight like you train“.
Með öðrum orðum að maður á að byggja alla þjálfun upp á verkefnum sem eru sem næst raunveruleikanum og æfa fyrir raunveruleikann en ekki bara til að standast próf og svo að temja sér fagleg vinnubrögð bæði við æfingar og í raunverulegum verkefnum þannig að úr verði rútína sem hægt er að framkvæma án þess að hugsa.

Bestu kveðjur,
Kristín Sigmarsdóttir.