Um síðustu helgi hélt Björgunarsveit Hafnarfjarðar námskeið í fjallamennsku fyrir þá nýliða sem hófu þjálfun sína í haust. Námskeiðið nefnist fjallamennska 1 og þar eru kennd grunnatriði í ferðalögum um fjallendi að vetri til. Sérstaklega er farið yfir notkun ísaxar og mannbrodda ásamt leiðarvali með tilliti til snjóalaga. Leiðbeinendur voru Ragnar Heiðar Þrastarson, undanfari í Björgunarsveit Hafnarfjarðar og Freyr Ingi Björnsson, yfirleiðbeinandi Björgunarskólans í fjallamennsku.

Mynd: Ragnar Heiðar Þrastarson

Námskeiðið fór fram við Skarðsmýrarfjall á Hellisheiði, en gist var í skátaskálanum Þrymheimum sem er í eigu skátafélagsins Landnema. Á föstudag og laugardag rigndi hressilega á hópinn sem varði stórum hluta helgarinnar úti undir berum himni. Á sjálfvirkri veðurstöð Veðurstofu Íslands á Ölkelduhálsi mældist úrkoma um 50 mm frá föstudegi til sunnudags. Til samanburðar má nefna að úrkoma í Reykjavík fyrir janúar 2013 var samtals 120 mm. Hópurinn þurfti því að vinda fötin sín vel.

Í framhaldi munu nýliðarnir sækja fleiri námskeið en einnig fá að spreyta sig meira í íslenskri náttúru þegar þeir fara í sjálfstæðar ferðir þar sem skipulag ferðarinnar er algjörlega í þeirra höndum. Nýliðaþjálfun lýkur svo á næsta ári með nýliðaprófi og formlegri inngöngu inn í Björgunarsveit Hafnarfjarðar.

Categories: Nýliðastarf