Aðstæður voru með besta móti þegar fimm vaskir nýliðar björgunarsveitar Hafnarfjarðar þreyttu nýliðapróf um síðustu helgi. 

Prófið hófst á því að hópurinn skipulagði gönguleið með fyrirfram ákveðinni upphafs- og endastöð, frá Vatnsskarðsnámum að Valabóli í upplandi Hafnarfjarðar. Að því loknu tók við leitarverkefni við Ástjörn þar sem reyndi bæði á leitartækni- og fyrstuhjálparkunnáttu nýliðanna. 

Um kl 22:00 um kvöldið var hópnum skutlað að Vatnsskarðsnámum þaðan sem ferðinni var heitið meðfram Undirhlíðum og áleiðis að Helgafelli. Gangan gekk hratt og örugglega fyrir sig undir stjörnubjörtum himni og litríkum norðurljósum þar til komið var að tjaldinu í Valabóli um tvöleytið um nóttina.

Eftir kalda og stutta nótt var tjaldið tekið niður og áfram haldið að Kaldárseli þar sem við tóku sig- og klifurverkefni í djúpri sprungu í sólríku en vindasömu veðri. Á meðan leiðbeinendur leituðu að talstöð sem féll ofan í sprunguna á meðan á verkefninu stóð héldu nýliðarnir í næsta verkefni sem var að losa fastan bíl í grenndinni. 

Lokaverkefni nýliðaprófsins var svo sjóverkefni þar sem þurfti að finna bát sem hafði hvolft í sjónum skammt frá golfvellinum Keili og tvo farþega bátsins. Hópurinn fékk að spreyta sig á gúmmíbát og sæþotum sveitarinnar við leitina. Farþegar og bátur fundust fljótt og örugglega og að því loknu þurfti að toga bátinn heim í höfn.

Nýliðarnir stóðust prófið með ágætum og eiga bæði skipuleggjendur og aðrir aðstandendur hrós skilið fyrir krefjandi en skemmtilegt nýliðapróf.

Categories: Nýliðastarf