Dagana 18.-20. apríl s.l. hélt BSH sporanámskeið fyrir hundamenn og teymi. Leiðbeinandi var Alis Dobler hundaþjálfari frá Sviss með menntun frá GAK9 í Bandaríkjunum. Námskeiðið var haldið í Hfn og nágrenni. 6 hundateymi tóku þátt og 4 áhorfendur voru með allan tímann auk þess sem örfáir aðrir gestir kíktu við í stuttar heimsóknir. Þátttakendur voru ma. frá BSH (3), Bjsv. Ársæl Rvk (1), Bjsv. Sigurvon (1), Bjsv. Skagfirðingasveit (1), Hjsv. Skáta Garðabæ (2) og 2 voru utan sveitar.
Námskeiðið hófst á laugardegi í björgunarmiðstöðinni Klett í Hfn þar sem Alis fór í gegnum kynningu á sér og fyrirkomulagi námskeiðsins, þátttakendur kynntu sig svo og sögðu frá reynslu sinni og hundsins síns. Farið var með hópinn á Vigdísarvelli og Krísuvíkurleið þar sem lögð voru grunnspor á lítið megnuðu svæði til að sjá grunnþekkingu hundanna og stöðu teymanna. Fljótlega eftir hádegi fengum við uppkall og útkallsbeiðni á TETRA þar sem við vorum nálægt slysstað. Spori Ásbjörn og Ársæll Theodór voru næstir og fóru til að kanna aðstæður. Á vettvangi, sem var eingöngu nokkur hundruð metra frá okkur, blasti við þeim bifreið sem oltið hafði af veginum og var gjörónýt og eldri hjón sem komist höfðu úr bifreiðinni. Ásbjörn og Theodór veittu hjónunum fyrstu hjálp en þau voru í miklu sjokki og kvörtuðu undan eymslum í baki og hálsi, um var að ræða erlenda ferðamenn. Ásbjörn og Theodór hlúðu að hjónunum þar til lögregla og sjúkabifreið komu á vettvang og tóku við. Seinni partinn færðum við okkur í Vallarhverfið og vorum í iðnaðarhluta hverfisins. Þar sem auðveld grunnspor voru lögð fyrir teymin og geta hundanna á malbiki skoðuð.
Sunnudeginum var öllum eytt í borgarlandslagi og með hörðu undirlagi. Farið var í gegnum grunnaðferðir í sporlagningu og rakningu á hörðu yfirborði og hvernig aðstæður vinna með hundinum og hvernig leggja má spor gagngert til þess að hann upplifi og læri ómeðvitað hvar líklegast sé að finna slóð eða spor eftir manneskju við erfiðar aðstæður. Allir þátttakendur fengu verkefni við sitt getustig.
Mánudeginum var tvískipt, fyrri hlutanum var varið í íbúðarhverfi og í kringum Víðistaðatún með öllum þeim truflunum sem borgarlandslag býður upp á. Hundarnir réðu misvel við þær aðstæður og þurftu sumir frá að hverfa og færast í auðveldari verkefni. Síðari hluta dagsins var varið við æfingar upp við Garðaholt þar sem áreitið og erfiðleikastigið var aftur lækkað og öll teymin fengu krefjandi verkefni sem gat ekki misheppnast til þess að allir færu heim með jákvæða minningu af verkefnunum.
Lærdómurinn af námskeiðinu var mikill, einkum má segja að aðferðir við sporlagningu skipta mestu máli í upphafi þjálfunar og að erfiðleikastigið sé ekki aukið of þétt til þess að hundurinn missi ekki sjálfstæðið eða getuna til að leysa verkefnið og þurfi að leita til eiganda eftir stuðning eða handleiðslu. En eitt það besta var að við vorum með hunda af öllum stigum, hund sem aldrei hafði sporað og allt upp í þaulvana sporara svo við fengum að sjá og upplifa mörg erfiðleika- og þjálfunarstig. Þá fengum við að sjá ólíkar aðferðir við að verðlauna hunda fyrir vinnu og farið var í gegnum mikilvægi á að finna réttan hvata/verðlaun fyrir hundana. Við kynntumst öðrum hundamönnum sem geta unnið með okkur í framtíðarverkefnum og hjálpað hvort öðru að komast á næsta stig þjálfunar.
Björgunarsveit Hafnarfjarðar þakkar öllum þátttakendum fyrir komuna, Alis Dobler kærlega fyrir að koma og leiðbeina og Icelandair Hotels fyrir veittan stuðning.
Ætlunin er að endurtaka námskeiðið í maí/júní 2016 og einnig halda áfram með teymin þar sem frá var horfið.
Fleiri myndir frá námskeiðinu má m.a. finna á Facebook.