Neyðarkall 2018

Neyðarkall ársins

Nú er Neyðarkallasalan 2018 langt komin. Félagar í Björgunarsveit Hafnarfjarðar stóðu vaktina dagana 1.-3. nóvember síðast liðinn og seldu lyklakippuna Neyðarkall í öllum helstu verslunum í Hafnarfirði, salan gekk afar vel enda er okkur alltaf vel tekið af Hafnfirðingum.

Í tilefni 90 ára afmælis Slysavarnarfélagsins Landsbjargar minnumst við liðinna tíma og er kallinn klæddur í stíl fyrri tíma, gulan stakk og með broddstaf. Allar lyklakippur seldust upp hjá okkur rétt um kl. 15 á laugardeginum en vegna mikillar eftirspurnar höfum við pantað nokkra auka litla kalla og geta áhugasamir nálgast þá með því að hringja í 565-1500 eða senda okkur tölvupóst. Einnig fengum við tvær vinasveitir af landsbyggðinni í heimsókn og stóðu bæði Björgunarfélagið Blanda og Björgunarsveitin Strandasól með okkur á völdum stöðum.

Einng vorum við með stóra neyðarkallinn líkt og fyrri ár, sala á þeim hefur gengið vonum framar enda eigum við marga góða bakhjarla í fyrirtækjum bæði í Hafnarfirði og á höfuðborgarsvæðinu. Í ár sem endranær svöruðu Hafnfirðingar kallinu. Þeir sem vilja nálgast stóran neyðarkall mega hafa samband með tölvupósti á netfangið starfsmadur@spori.is

Fjáröflunin er sveitinni afar mikilvæg og stendur ásamt öðrum fjáröflunum undir árs rekstrarkostnaði einingarinnar. Þökkum kærlega stuðninginn og velviljann um helgina.

Við höfum sett nokkrar myndir í myndasafn inn á opna Facebook síðu sveitarinnar. Myndir eru stöðugt að bætast við safnið enda voru þetta skemmtilegir dagar.