Björgunarsveitarmenn í Hafnarfirði hafa haft í nógu að snúast seinustu daga.

Þann 15. janúar var boðað til leitar í Kollafirði. Fóru 8 sérhæfðir leitarmenn á 2 bílum sveitarinnar til leitar en leitað var einhverra ummerkja eftir Matthías Þórarinsson sem lýst hefur verið eftir í fjölmiðlum. Sérhæfður leitarhópur sveitarinnar samanstendur af leitarmönnum sem hafa setið fagnámskeið í leitartækni og eru því vel þjálfaðir í leit að týndu fólki.

Þann 16. janúar kom útkall í Skarðsheiði en þar hafði maður dottið og fótbrotnað ofarlega í Heiðarhorni sem er 1053 metra hátt. Sveitin sendi 2 jeppa sveitarinnar á staðinn með vel búnum mönnum sem gengu upp fjallið í átt að hinum slasaða með börur. Vel gekk að labba upp fjallið þrátt fyrir mikla ísingu og hálku og gekk aðgeðin í heild sinni mjög vel.

Um helgina var einnig haldið námskeið fyrir nýliða sveitarinnar í leitartækni og gekk það námskeið vonum framar þrátt fyrir útköll helgarinnar.

Þann 17. janúar barst sveitinni útkall um hættustig á Keflavíkurflugvelli en þar hafði flugmaður veikst og þurfti vélin að lenda í Keflavík. Sjóflokkur mannaði Einar Sigurjónsson sem er skip sveitarinnar og landhópar héldu í Straumsvík á 3 bílum þar sem þeir biðu fyrirmæla. Allt fór vel að lokum og lenti vélin án vandræða. Alls tóku um 20 manns þátt í þessu útkalli frá sveitinni.