„Ég átti ekki von á því að þetta námskeið ætti svona við mig. Þegar ég byrjaði í nýliðanum var fókusinn minn aðallega á sjóflokk,“ segir Jóhannes, nýliði í Björgunarsveit Hafnarfjarðar.

Í janúar skelltu nýliðarnir í Björgunarsveit Hafnarfjarðar sér á helgarnámskeið í fjallamennsku. Hópurinn stóð sig vel og skemmti sér konunglega þar sem þau lærðu á neyðartjald, snjóflóðaýlur, leitarstangir og hvernig er best að moka einstaklinga upp úr snjóflóð.

„Fjallamennsku námskeiðið kom skemmtilega á óvart. Laugardagurinn var kaldur en skemmtilegur. Við vorum úti þar til fór að rökkva og gengum við mikið þann daginn.“

Á laugardeginum var farið yfir með hópnum hvernig á að haga sér á fjöllum, vinna með exi og hvernig á að bjarga sér í óbyggðum. Á sunnudeginum fóru þau í línu. Eftir það lærðu þau að setja upp neyðarskýli og snjóskýli.

„Ferðin fær 10/10. Leiðbeinendur voru til fyrirmyndar og vörpuðu nýju ljósi á hve fjallamennska er í raun skemmtileg.“