Sjóflokkur var kallaður út kl. 21:48 í gærkvöldi vegna neyðarblysa úti fyrir Straumsvík. Fiskaklettur og Valiant voru komnir út 6 mínútum eftir boðun og farnir að leita svæðið að og við Straumsvík. Þegar þriðja neyðarblysinu var skotið upp var ákveðið að fara einnig út á Björgunarskipinu Einari Sigurjónssyni og bað LHG Einar um að sinna aðgerðarstjórn á svæðinu. Góð skilyrði voru til leitar og voru alls 9 bátar og skip frá sjóbjörgnuarsveitunum á höfuðborgarsvæðinu sem að leituðu frá Straumsvík og norður að Gróttu. Svæðinu var skipt upp og leitarlína leituð til suðurs og síðan aftur til norðurs nær landi. Farið var hægt yfir enda háfjara á miðnætti og mikið um grynningar á svæðinu. Engar frekari vísbendinar bárust um bát í neyð og var leit því hætt þegar búið var að fínkemba svæðið. Einar Sigurjónsson kom í höfn í Hafnarfirði kl. 03:25 í nótt.